151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

697. mál
[15:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að gera örstutta grein fyrir fyrirvara sem ég hafði sett við nefndarálitið. Ég er á nefndaráliti meiri hlutans en skrifaði undir það með fyrirvara og lofaði þar að gera grein fyrir honum í ræðu. Hann snerist fyrst og fremst um skilgreiningu á hugtakinu sprotafyrirtæki og þeim vandamálum sem því geta fylgt. Það var ástæðan fyrir fyrirvara mínum. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, framsögumaður málsins, gerði grein fyrir því í ræðu sinni að þegar hún boðaði að málið yrði tekið inn á milli 2. og 3. umr. væri það einmitt þetta viðfangsefni sem nefndin ætlaði að taka til frekari skoðunar. Ég fagna því auðvitað og treysti því og trúi að nefndinni takist í sameiningu að leysa úr þessu þannig að við getum öll þokkalega vel við unað og séum örugg um að frumvarpið þjóni örugglega þeim tilgangi sem til er ætlast. Þannig að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það.

Ég ætlaði þó að segja nokkur orð í tilefni af ræðu framsögumanns, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, þegar hún var að ljúka máli sínu og talaði þar frá eigin brjósti og allt gott um það að segja. Ég er alveg sammála henni um áherslur í nýsköpunarmálum og ég veit að við deilum þar skoðunum að mörgu leyti og ætla ekkert að draga úr því. Hins vegar vil ég segja að í nýsköpun þarf úthald og þrautseigju. Mér hefur aðeins þótt skorta á það í þeim úrræðum og þeim góðu breytingum sem gerðar hafa verið á starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja, að menn hafi treyst sér til þess að láta þær ná langt fram í tímann eða lengra fram í tímann en raun ber vitni. Ég er þá fyrst og fremst að vísa til heimilda lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í svokölluðum vísissjóðum og síðan tímabundinnar hækkunar á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarstyrkja. Ég vildi bara koma því að.

Síðan vil ég nota tækifærið, fyrst hér hefur komið fram breytingartillaga frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni í tengslum við þetta mál, nýtt að efni en engu að síður breytingartillaga. Ég vil eiginlega fagna því að breytingartillagan hafi komið fram. Þetta tengist máli sem nokkrir þingmenn, undir forystu Andrésar Inga Jónssonar, lögðu fram fyrr á þessu þingi og sjálfur var ég einn af flutningsmönnum þess. Ég styð þessa breytingartillögu og ég skal bara játa á mig að eiginlega fórst fyrir hjá mér að hafa fyrirhyggju til að taka þetta upp í nefndinni sjálfri þegar farið var yfir þetta, en auðvitað var það ekki í upprunalegu frumvarpi. Ég styð það heils hugar og mun a.m.k. taka málið upp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ræða hvort við getum annaðhvort fellt þessar breytingartillögur inn í frumvarpið og/eða að nefndin geti lýst stuðningi við þessar fram komnu breytingartillögur og þær verði afgreiddar. Ég held að þetta sé mikið réttlætismál, eins og hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson og Hanna Katrín Friðriksson fóru ítarlega yfir, og ég ætla í sjálfu sér ekki að lengja þá umræðu. En ég tel að málið sé þannig vaxið og að kostnaðurinn því samfara sé svo smávægilegur að okkur sé í lófa lagið að klára þetta. Að auki hefur komið jákvæð umsögn frá Þjóðskrá sem annast þessar skráningar um að þetta sé æskileg breyting. Þannig að ég sé ekki að okkur ætti að vera nokkuð að vanbúnaði í þessum efnum.