151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

frumvarp um hálendisþjóðgarð.

[13:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrirspurnina. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni sem fram kom í máli hans að þetta frumvarp, sem kom hingað inn raunar um áramót, er stórt mál og um það bárust margar umsagnir, á annað hundrað umsagnir. Mér er kunnugt um að umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið að vinna að þessu máli og farið vel yfir þær umsagnir sem bárust sem fólu í sér mjög margháttaðar athugasemdir.

Það hefur verið mín sýn á þetta mál, sem er í stjórnarsáttmála, að ég tel hálendisþjóðgarð vera gríðarlegt framfaramál fyrir Ísland. Ég held að það sé mikilsvert framlag til náttúruverndar, ekki bara hér heima heldur á alþjóðavísu. En vegna þess hve stórt og mikilvægt mál þetta er þá hef ég líka talið mjög mikilvægt að sem breiðust sátt náist um það. Það þýðir að vanda verði mjög vel til verka, það þarf að fara vel yfir þær umsagnir sem koma fram og finna góðar lausnir til lengri tíma á þeim álitamálum sem þar eru uppi. Því að ég lít á miðhálendisþjóðgarð sem mál sem á að standa til lengri tíma. Hver verður nákvæmlega lending umhverfis- og samgöngunefndar get ég eiginlega því miður ekki sagt til um, en ég vil fullvissa hv. þingmann um að ég átta mig mjög vel á því að þetta mál er stórt. Það eru töluvert mörg álitamál og það er mikilvægt, ef við viljum þessu máli vel, sem ég vil, því að ég trúi því að þetta sé mikið framfaramál fyrir Ísland, að við vöndum okkur við frágang þess. Það hafa verið mín skilaboð til nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd.

Að lokum get ég sagt að það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að fara að koma okkur saman um hvaða málum eigi að ljúka hér á þinginu. Ég vænti þess að þau mál skýrist á næstunni, eins og hæstv. forseti orðaði það með mjög opnum hætti áðan.