151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

[13:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mér þykir mjög leitt að það líti þannig út, en ég verð nú bara að biðja hæstv. ráðherra um að eiga það við sig að hún sé í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og hafi til þess þurft að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, eins og hún hefur orðað það, og dásamað þær málamiðlanir sem hafi þurft að gera. Það er orðræða hæstv. forsætisráðherra og réttlæting fyrir því að vera í samstarfi með þessum flokki sem þarf síðan að vera í eftirdragi með þeim málum sem stjórnin ætti að setja fram, eðli málsins samkvæmt. Það var sú tíð að ég trúði því ekki að VG myndi fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum yfir höfuð þannig að sú hugmynd að hæstv. forsætisráðherra dragi taum hagsmunaafla Sjálfstæðisflokksins er bara ekkert fráleit. Hæstv. ráðherra getur verið móðguð yfir því, það verður bara að hafa það, en það lítur þannig út.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. forsætisráðherra að það komu engin efnisleg rök. Ég er búinn að lesa þessa greinargerð, ég er búinn að taka þátt í þessu samtali. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að hafa auðlindir ýmist tímabundnar eða uppsegjanlegar. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu á auðlindanýting að vera tímabundin. Það eru engin rök til annars. En ef hæstv. ráðherra er með einhver rök fyrir því (Forseti hringir.) að hafa auðlindanýtingu nokkurn tímann ótímabundna þótt uppsegjanleg sé þá þætti mér vænt um að hæstv. ráðherra myndi bera þau rök hingað á torg frekar en að móðgast yfir því hvernig hlutirnir blasa við.