151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi góða ræðu og tek undir það með þingmanninum að það hefði vissulega, svo maður fari nú aðeins í kjördæmapotið, verið æskilegra ef leikurinn umræddi hefði farið á annan veg. En svona eru nú þessar íþróttir líkt og pólitíkin, maður veit ekki alveg hvernig þetta fer á endanum þótt maður reyni og reyni og taki þátt og geri sitt besta, það er bara þannig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Við erum þakklát fyrir þær aðgerðir sem gripið er til, það er alveg ljóst, og þetta frumvarp sem er klárlega til bóta. En það kemur fram að mér sýndist í nefndaráliti sem fylgir þessu máli að þær breytingar sem óskað var eftir, þar á meðal af stúdentum og æskulýðsfélögunum, þættu of umfangsmiklar til að breyta frumvarpinu. Mér finnst eins og það undirstriki að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, eins góðar og þær eru og eins langt og þær ná, ná ekki utan um alla þá hópa sem þær þurfa að ná utan um. Það er alltaf einhverjir skildir eftir, að ósekju vil ég segja.

Þessi faraldur hefur alveg komið jafn illa við hin svokölluðu æskulýðsfélög og íþróttafélögin þótt það sé kannski einhver hlutfallslegur munur þar á, ég kann það ekki. Hann hefur samt líka að sjálfsögðu, eins og kom fram í athugasemdum stúdenta, komið yfir þá. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort það hefði ekki verið rétt, þó svo að við styðjum þetta mál, vegna þess að það hjálpar klárlega og bætir stöðuna fyrir íþróttahreyfinguna sem við öll viljum gera, og hvort það hefði ekki verið aðeins meiri metnaður í því að láta þetta ná aðeins lengra. Það er verið að kalla eftir því og hér eru dæmi í umsögnum, m.a. varðandi það að íþróttafélag fær stuðning en skátarnir í næsta húsi fá hann ekki. Þannig að ég spyr hvort það hefði ekki verið betra að láta þetta vera aðeins víðtækara heldur en að skera þetta þarna við nögl.

(Forseti (GBr): Forseti mismælti sig áðan þegar hann kynnti hv. þingmann, sagði hann vera 6. þingmann Suðurkjördæmis, sem hann er ekki heldur Suðvesturkjördæmis. Þetta skiptir máli þegar rætt er um nýlegan sigur eða ósigur í Suðurkjördæmi.)