151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar rétt aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann vegna þess að hann vísaði til breytingartillögu frá minni hluta velferðarnefndar varðandi það að litið skuli til þess hvort starf hæfi starfsreynslu og menntun viðkomandi. Ég held við þurfum að skoða það í samhengi við málsgreinina sem þetta er sett inn í. Þetta er 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er mjög matskennd grein að því leyti að hún hefst á orðunum: „Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg“ vegna ýmissa atriða. Þar er talinn upp aldur, félagslegar aðstæður sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskylda vegna ungra barna. Enn fremur er heimilt að líta til heimilisaðstæðna þegar viðkomandi hafnar starfi fjarri heimili sínu.

Mér finnst það vera gott dæmi um hversu matskennt þetta er. Ef maður er t.d. búsettur á Sauðárkróki og fær boð um vinnumarkaðsúrræði í Hafnarfirði þá eru góðar og gildar ástæður fyrir því að geta ekki þegið það boð. Þessi breytingartillaga finnst mér í rauninni vera af sama meiði. Þetta snýst dálítið um það að fólk líti ekki á starf einungis sem eitthvað sem kalli á viðveru og snúist um tekjuöflun, heldur líka að maður vinni við eitthvað sem manni finnst maður vera góður í eða eitthvað sem maður hefur áhuga á og hentar hæfni manns. Starfsreynsla og menntun eru leiðir sem við höfum til að meta hvernig fólk passar inn í störf. Ef fólk hefur alla sína reynslu og alla sína menntun á sviði sem er kannski fullkomlega óskylt því starfi sem því er boðið, væri ekki alveg athugandi að setja það inn í svona matskennt ákvæði sem réttlætingu fyrir því að þiggja ekki starf?