151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni yfirferðina og sérstaklega eina setningu sem kom þarna undir lokin, með leyfi forseta:

„Almenningur er ekki að reyna að svína á kerfinu.“

Mér finnst þetta einmitt vera rauður þráður sem við þurfum að halda á lofti þegar skerðingar og tortryggni eru alls staðar í millifærslukerfum, framfærslukerfum sem fólk þarf að reiða sig á.

En mig langar að fá hv. þingmann til að fara aðeins með mér í tímaferðalag aftur til desember þegar hv. þingmaður lagði til að launatengd gjöld yrðu hluti af því sem íþróttafélög fengju úr ríkissjóði til þess að við værum ekki að skerða styrkinn strax í fyrsta skrefi. Sú tillaga var felld hér í þingsal. Reyndar vildu stjórnarliðar samþykkja hana, þeir föttuðu bara ekki að til þess þyrftu þeir að samþykkja tillöguna [Hlátur í þingsal.] heldur héldu þeir að hægt væri að redda því einhvern veginn í nefnd. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta vera svo gott dæmi um hversu hefur illa gengið að fá stjórnarliða til að hlusta á rök í þessum málum. (Forseti hringir.) Er sama uppi á teningnum núna með þær breytingartillögur sem við erum að missa frá okkur í 2. umr. og mögulega í 3. umr. líka?