151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er kannski einhverju nær. En hv. þm. Smári McCarthy segir að ekki eigi að neyða neinn til að vinna, ef ég heyrði rétt. (SMc: Vilt þú neyða fólk til að vinna?) — Nei, ég ætla ekki að neyða neinn til eins eða neins. En spurningin er þessi: Á sá sem ekki vill vinna en getur það, þá rétt á að fá framfærslu frá skattgreiðendum? Það er kannski munurinn á þessari hugsun hjá okkur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að aðstæður fólks eru ólíkar. Ég þekki það sennilega manna best að það eru ótrúlega mismunandi aðstæður hjá fólki. Ég get alveg skilið að stundum sé sú staða uppi að fólk sem er á atvinnuleysisbótum geti ekki tekið akkúrat þá vinnu sem gæti boðist. Ég tel að kerfið eigi að taka tillit til þess ef málefnalegar ástæður liggja að baki. Ég er ekki til vandræða þar. En ég er bara að hugsa um þennan hugsunarhátt, að fólk almennt líti á það sem sjálfgefinn hlut að skattgreiðendur eða samfélagið framfleyti fólki sem vill bara ekki vinna, vill gera eitthvað annað við tímann. Ég get alveg skilið að menn vilji gera eitthvað annað við tíma sinn en þá verður það sjálft að búa sér til einhverjar tekjur úr því en ekki að skattgreiðendur eða samfélagið sjái því fyrir framfærslu. Ég held að sú hugsun sé almennt hættuleg. Mér finnst hafa borið meira á þessari hugsun núna en áður, kannski vegna þess að Píratar eru til. En ég er að segja að ég hef áhyggjur af þeirri hugsun, að hún sé mjög skaðleg. Ég lít alltaf svo á að ef fólk finnur ekki til þess að það sé að leggja eitthvað til, skapa eitthvað, borga einhverja skatta og sé hluti af samfélaginu þá muni það verða til skaða.