151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:41]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir með honum. Vissulega þarf hvata, en hvatar geta verið með ýmsu móti og hvatar að skapandi lausnum og hugvitsamlegum lausnum sem gagnast jafnvel öllum geta oft verið, ja, þeir geta t.d. verið leti. Af því að ég nefndi nú Halldór Laxness hér áðan, rithöfundinn, þá minnir mig að ég hafi lesið um það að þegar hann var drengur og átti að moka flórinn hafi hann fundið upp einhvers konar vél, eða gert tilraun til að finna upp einhvers konar vél, sem tók það ómak af honum.

Nú er of langt síðan ég las þetta svo ég muni alveg hvernig þessi vél virkaði, en það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið hvernig hún virkaði eða hvort hún virkaði heldur hitt að það var leti sem var honum í rauninni hvati og aflvaki til uppfinninga, þ.e. hann nennti ekki að moka og reyndi þá að finna upp eitthvað sem tæki af honum ómakið. Það held ég að sé hvati ótal uppfinninga á síðustu öld og að þannig sé það enn. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að það ríki ákveðið jafnvægi milli hugvitsins og svo aftur þess að strita með höndunum. Ég er ekki einn þeirra sem eru andvígir því að fólk stundi líkamlega vinnu og ég er ekki að mæla gegn því að námsmenn vinni á sumrin. En ég hef hins vegar efasemdir um þessa sífelldu vinnu með námi.