151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[18:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, framlengingu úrræða o.fl. Málið er fínt en hefur þó mætt þeirri gagnrýni að ekki sé tekið á fleiri þáttum eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni um æskulýðsstarf KFUM og KFUK og skátanna og í fyrri ræðum kom fram atvinnuvandi námsfólks sem er án vinnu á milli námsára. Það er eitthvað sem manni finnst þurfa að taka á til að mæta öllum þeim þáttum sem eru staðreynd í sambandi við þá stöðu sem við erum í núna, á tímum þar sem er þó að birta til í orðsins fyllstu merkingu, nú er lengsti sólargangurinn en sól er líka að hækka á lofti hvað varðar Covid-faraldurinn og er það gleðilegt. En þá þarf að líta til þessara sjónarmiða og vanda til verka svo að sem flestum þáttum sé mætt.

Borist hafa töluvert margar umsagnir og ég er hér með eina frá BSRB sem er ansi ítarleg. Mig langar aðeins, með leyfi forseta, að lesa upp úr henni:

„BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til breytinga á atvinnuleysistryggingum og þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita álit sitt á því. BSRB gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við það að bandalagið hafi ekki verið hluti af samráðsferli stjórnvalda við vinnslu frumvarpsins. Í greinargerð kemur fram að haft hafi verið samráð við ASÍ og SA en önnur heildarsamtök launafólks voru ekki kölluð að borðinu.“

Tekur sá sem hér stendur algerlega undir það með þeim að það vekur furðu að þau hafi ekki verið kölluð að borðinu, eins og segir hérna.

„Tæplega 700 manns í aðildarfélögum BSRB eru á atvinnuleysisskrá og hátt hlutfall þeirra vegna starfa í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu og á Suðurnesjum.

Með frumvarpinu er verið að bregðast við því alvarlega og langvarandi atvinnuleysi sem nú ríkir hér á landi vegna heimsfaraldursins og viðbragða gegn honum. Frá því í mars 2020, þegar sóttvarnaaðgerðir fóru að hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf á Íslandi, hefur BSRB hvatt til öflugri stuðnings í atvinnuleysistryggingakerfinu og atvinnusköpunar. Tregða hefur verið við að lengja atvinnuleysistímabilið og hækka atvinnuleysisbætur. Þetta þýðir að þessi afmarkaði en stóri hópur er að taka á sig miklu mun meiri efnahagslegar byrðar en aðrir vegna faraldursins.

Þessi umsögn fjallar um fjölda og stöðu atvinnulausra, nauðsyn þess að skapa störf, hækka atvinnuleysisbætur, framlengja hærri atvinnuleysisbætur vegna barna og lengja bótatímabilið. Þá verður fjallað um þær greinar frumvarpsins sem lúta að breytingum á atvinnuleysislöggjöfinni …“

Farið er frekar ítarlega í þetta í umsögninni og verður að segjast eins og er að þegar verið er í aðgerðum sem kosta að sjálfsögðu mikið og í raun og veru verið að taka að láni inn í framtíðina til þess að bregðast við ástandinu eins og það er þá verður, alla vega í mínum huga, að líta til allra þeirra sem standa frammi fyrir þessum atvinnuleysisveruleika. Hér segir áfram:

„Atvinnuleysi stærsta áskorunin. Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir miklu atvinnuleysi næstu ár. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir 7,8 prósenta atvinnuleysi og að það lækki síðan hægt á næstu árum en verði enn um 4,3 prósent árið 2026 samkvæmt mati Hagstofunnar.“

Þetta eru svolítið sláandi tölur miðað við það að mann langar að vera bjartsýnn.

„Í þessu samhengi er rétt að benda á að árlegt atvinnuleysi á árunum 2000–2019 mældist að meðaltali um 3,4 prósent hjá Vinnumálastofnun. Mjög mikilvægt er að bregðast við þessari alvarlegu stöðu af krafti. […]

BSRB vekur athygli á því að sérstakt ákvæði um viðbót við atvinnuleysisbætur vegna barna þarf að framlengja. Að jafnaði fær fólk greitt sem nemur 4 prósentum af grunnbótum með hverju barni undir 18 ára aldri en það var hækkað tímabundið í 6 prósent. Ákvæðið gildir aðeins til 31. desember 2021 en mikilvægt er að framlengja það út næsta ár til að tryggja betur velferð barna í fjölskyldum sem hafa orðið fyrir atvinnumissi vegna heimsfaraldursins.

Í nýútkominni skýrslu UNICEF á Íslandi um réttindi barna á Íslandi er bent á að erfiðar efnahagsaðstæður valdi auknum efnislegum skorti meðal barna. Skýrslan byggir á gögnum frá 2009, 2014 og 2018 og sýnir að staða barna var góð í alþjóðlegum samanburði árið 2018 fyrir utan þátttöku í tómstundum. Samanburður við fyrri ár sýnir að hlutfallslega færri börn eiga kost á tómstundum en árið 2009. UNICEF hvetur stjórnvöld til að huga vel að langtímaaðgerðum gegn neikvæðum áhrifum COVID-19 á börn. Að mati BSRB er hækkun atvinnuleysisbóta, framlenging á hærri atvinnuleysisbótum vegna barna og lenging bótatímabilsins hluti af þeim aðgerðum sem mikilvægar eru til að vinna gegn efnislegum skorti barna á Íslandi.“

Ég verð að segja að þetta er mjög áhugaverð umsögn og hún er lengri en þetta. En tími minn er knappur svo að ég ætla aðeins að bíða með að fara betur ofan í þetta. Ég árétta það að ríkisstjórnin taki þetta til skoðunar svo að jafnrétti ríki fyrir þá sem á þessari hjálp þurfa að halda.

Það hefur verið áhugavert að hlusta á ræður í dag og þær vangaveltur, getum við sagt, um það hvernig heimurinn muni líta út eftir að þessum heimsfaraldri lýkur og hver staða okkar sé í heiminum og hver breytingin verði. Það sem mig langar til að koma að er sá félagslegi þáttur sem mér finnst að þurfi að beina sjónum að hvað varðar yngra fólkið okkar, fólk sem er að byrja að vinna, fólk sem er í skóla og rétt áður og eftir að fólk er búið í skóla. Það er þannig í mínum huga og margir taka undir það að félagslega hefur okkur farið töluvert aftur undanfarin ár. Fólk er meira að draga sig hvert inn í sitt herbergi ef við getum sagt sem svo. Það fær einhvers konar svölun út úr því að vera meira í tölvum og símum og því sem þar er boðið upp á, sem er náttúrlega alveg óendanlegt, en á meðan er sá félagslegi þáttur sem er okkur nauðsynlegur minni.

Ég tala nú bara af reynslu þar vegna þess að ég þekki alveg þá hlið í lífinu að hafa einangrast. Það er eins og hálfgerður spírall sem maður getur lent í. Þá var setning sem ég notaði sem möntru fyrir sjálfan mig: Maður er félagsvera, hvort sem manni líkar betur eða verr. Það nota ég á sjálfan mig til að leita ekki inn í einhvern einangrunarheim. En þetta hefur mér fundist fara svolítið vaxandi hjá yngri kynslóðinni í dag. Þessi félagslegi þáttur og ungmennafélagsandinn, eins og manni verður stundum á orði, er á undanhaldi. Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að við þurfum á því að halda bara til að halda þessari hlið heilsufarslega í lagi. Ég er að segja þetta í sambandi við þetta mál vegna þess að hér er minnst á íþróttastarf og tómstundastarf og þar fram eftir götunum. Heimur íþróttanna hefur breyst mjög mikið undanfarin ár, það eru orðnar miklar tekjur af íþróttum, afreksíþróttum, og allt í kringum íþróttir, eins og bara íþróttafræði, meðferð meiðsla og annað slíkt, er orðið stór atvinnugrein í heiminum. Við hér á Íslandi höfum kannski ekki verið að horfa á þetta. Þetta er eitthvað sem mætti bæta, finnst mér, og væri hægt af þessu tilefni að spýta betur í. Þá er ég líka að horfa til tómstunda og annarrar iðkunar sem kallar á félagsstarf. Maður er manns gaman. Áhyggjur mínar gagnvart þessu eru þær að það er algengara að ungt fólk einangri sig. Mér finnst ekki hægt að segja að það verði hver að fá að hafa það eins og hann vill þegar hann er ungur og óreyndur. Við þurfum að innprenta það í ungt fólk að hitta hvert annað og stunda félagslíf.

Svo hafa þingmenn líka velt mikið fyrir sér í dag hvað teljist vera vinna og atvinnuleysi og hafa verið að spyrja hvort þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur eigi að vera meðvitaðir um það hvaðan peningarnir koma. Það er kannski líka partur af þeirri fræðslu sem ég hef oft talað um, mér finnst að ungt fólk eigi líka að fá að heyra hvað það getur gert fyrir samfélagið en ekki hvað samfélagið getur gert fyrir það. Það er setning sem er heimsfræg en er aldrei of oft sögð. Öll viljum við unga fólkinu vel, ég held að allir séu sammála um það. Þess vegna eru mikilvægir þessir félagslegu grunnþættir og grunnþættir þess hvernig samfélög eru saman sett, hvernig verðmætin verða til og hvernig við iðkum félagslega færni og samveru hvert við annað, án þess að, hvað á maður að segja, nokkur sé píndur til þess, þetta sé bara innprentað í ungt fólk sem jákvæð fræðsla um að lifa lífinu lifandi, hvert með öðru, en ekki að einangra sig. Þegar ég var að lesa þetta mál, hlusta á ræðurnar í dag, lesa umsagnir frá hinum og þessum aðilum, þá kom þessi hugsun mjög skýrt upp í minn koll og þess vegna vildi ég koma því á framfæri hér.