151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég held að það megi til sanns vegar færa að stjórnvöld hafi ekki yfirsýn yfir stöðu stúdenta, þau höfðu það alla vega ekki til að byrja með. Í mars þegar stúdentahreyfingin fór fyrst að ræða við þingið um stöðu stúdenta í Covid-ástandinu voru það nefnilega stúdentar sjálfir sem gerðu kannanir á atvinnuástandi í sínum hópi. Það var svo eftirtektarvert, það er sjaldan sem hagsmunahópur kemur jafn vel nestaður til þingsins og getur bara sýnt það svart á hvítu hvar þörfin er og hver hún er. Það sem hefur síðan fylgt er, hvað á að kalla það? Það er einhver þrjóska eða þvermóðska í ráðuneytinu, finnst manni, að vilja ekki taka sönsum þó að stúdentar séu alltaf að segja sama hlutinn og byggi á sama raunveruleika. Það er raunveruleiki sem ekki hefur breyst af neinu viti en aldrei er brugðist við. Ég er nefnilega ekki alveg viss hvaðan þessi kúltúr sprettur eða hverjar ástæðurnar fyrir þessu eru. Ef við förum bara yfir dæmi um þær aðgerðir sem gripið var til t.d. fyrir ári þá var ákveðið að hleypa fólki ekki inn í atvinnuleysistryggingakerfið sem það hefur þó greitt inn í, heldur var vísað á að auka ætti stuðning við Nýsköpunarsjóð námsmanna. Nýsköpunarsjóður námsmanna er ágætur en mánaðarlaunin þar eru 300.000 kr. í tvo mánuði yfir sumar. Framfærslugatið hjá menntasjóðnum eru þrír mánuðir. Og 300.000 kr. í tvo mánuði deilt á þrjá mánuði er ekki há framfærsla. (Forseti hringir.) Þannig að það var ekki til að tryggja afkomuöryggi stúdenta.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að íslenska orðið er menning.)