151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun reyna að vanda mál mitt hér eftir þessa athugasemd, sem var reyndar ekki beint til mín, en það er sama. Það sem slær mig aðeins — slær og slær ekki, maður veltir fyrir sér hvort hægt hefði verið að gefa þessu máli hugsanlega aðeins meiri tíma til að fara yfir þessar breytingar. Þær eru taldar umfangsmiklar. Ég tek það fram að ég er mjög hlynntur málinu. Við ætlum að afgreiða þetta mál. En það er hins vegar full ástæða til að nefna það hvort menn hefðu getað gefið sér aðeins meiri tíma í þetta.

Það er áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það framfærslugat sem verður til. Og eins ágætur og Nýsköpunarsjóður námsmanna er þá dekkar hann heldur ekki alveg alla frekar en önnur kerfi. Við erum því að tala um að þetta sé í rauninni allt of flókið. Það er vitanlega svolítið sérstakt — og ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja það upp, ég var bara búinn að gleyma því — að námsmenn hafi sjálfir farið í þá vegferð að gera könnun á stöðu stúdenta. Auðvitað hefði það átt að koma annars staðar frá og auðvitað hefði menntamálaráðuneytið eða eitthvert slíkt apparat átt að ráðast í að kanna nákvæmlega hvernig staða þessa hóps er. Það vantar ekki fögru orðin hjá ríkisstjórninni þegar kemur að námsmönnum og skólakerfinu öllu, en yfirsýnina virðist algjörlega skorta, herra forseti, svo það sé nefnt. Þá spyr ég: Hver er þá lausnin? Hver lausnin akkúrat núna ef við viljum bregðast við þessu? Er það mögulega að koma með einhvers konar breytingartillögu, enn þá meiri breytingar, ná saman um einhvers konar breytingu sem tekur inn í þennan hóp og þessa hópa? Ég vil minna á að í minni fyrri ræðu hér í kvöld talaði ég m.a. um æskulýðsstarfið, einnig skátana, sem ég held að væri full ástæða til að horfa til ef við förum að ræða það að laga þetta mál með einhverjum hætti.