151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þingmaðurinn hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún talaði um vítahring í þessu samhengi vegna þess að of lág grunnframfærsla leiðir til þess að of mikið af stúdentum þarf að vinna með námi sem leiðir aftur til þess að vinna getur farið að koma niður á námsframvindu. Þar með fer fólk að vera lengur í námi og þarf síðan að taka hærri námslán. Það sem við gerðum með lögum um menntasjóð var að innleiða styrkjakerfi sem átti að virka hvetjandi á námsmenn til að hraða framvindu sinni en það kerfi getur ekki virkað nema ákveðið hvetjandi. Grunnframfærslan er áfram það lítil að fólk þarf áfram að framfleyta sér með vinnu og það kemur áfram niður á námi. Það breytir engu þó að fólk sjái ljósið við enda ganganna í formi styrkja ef það hefur ekki efni á því að helga sig náminu 100% vegna þess að grunnframfærslan er of lág. Og svo er kannski ágætt að rifja líka upp þá stöðu sem var búin til þegar styrkjakerfið var innleitt og ákveðið á sama tíma að lánahlutinn yrði að vera sjálfbær þannig að endurgreiðslur þurfi að standa undir útlánum á hverjum tíma. Það lýsir engum metnaði að námslánakerfið sé þannig uppbyggt að það eigi bara að reka sig sjálft, að ríkið hafi ekki döngun í sér til að leggja smá pening í það til þess einmitt að fleyta fólki betur í gegnum nám.