151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[20:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þessa svars hv. þingmanns væri forvitnilegt að heyra hvort hann er kannski með fleiri hugmyndir um hvar ríkið gæti haft vit fyrir fólki og fyrirtækjum um hvers konar samninga megi gera. Hægt er að sjá fyrir sér allmörg svið þar sem ríkið gæti hugsanlega viljað hafa vit fyrir fólki. Hér áður fyrr var Sjálfstæðisflokkurinn flokkur sem barðist fyrir því að almenningur á Íslandi gæti eignast sitt eigið húsnæði og eigin bíl og haft þannig það frelsi sem í því felst að eiga húsnæði og komast leiðar sinnar. Nú sjáum við endalausan straum frumvarpa þar sem reynt er að þrengja að möguleikum fólks á að eiga bifreið og komast leiðar sinnar og því er refsað á allan mögulegan hátt fyrir að gerast svo ósvífið að eiga og reka bifreið og nú bætist við þessi aukna takmörkun á möguleika fólks til að eignast húsnæði, sérstaklega tekjulægra fólks.

Lítum á þetta í samhengi við það sem hv. þingmaður og ég nefndum hér áðan, hvernig menn í bankakerfinu vilja nú þegar beina fólki frá því að fá að taka lán og koma sér upp húsnæði. Þessir sömu bankar segja svo núna að þetta frumvarp verði til þess fallið að draga enn úr líkum fólks á því að það geti eignast eigið húsnæði. Er ekki tímabært, að mati hv. þingmanns, að leita aftur í upprunann og styðja við frelsið og möguleika fólks á því að njóta frelsis, eignast húsnæði og bíl og komast leiðar sinnar hér á höfuðborgarsvæðinu og víðar?