151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:44]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Takk fyrir það. Á dauða mínum átti ég von en ekki að Miðflokkurinn færi að kvarta yfir því að ástandið væri eins og árið 1950. Aftur á móti hef ég fulla samúð með kvörtunum þeirra og held að það séu kannski fleiri hérna í húsinu sem eiga erfitt með þetta ástand. Við sitjum mörg í þingflokksherbergjum og erum að reyna að fylgjast með en sjáum ekki hvað dagskránni líður. Þetta er svolítið óþægilegt ástand, fyrir utan það að netið hér í húsinu og annað liggur niðri. Ég veit ekki alveg hver rétta lausnin væri en það væri kannski alveg ráð að gera smá hlé til að leysa úr þessu þannig að hlutirnir geti gengið með eðlilegum hætti. Þó að ég hafi kannski samúð með Miðflokknum og öðrum þingmönnum í þessu þá held ég að samúð mín sé mest hjá þeim kerfisstjórum Alþingis sem eru núna að reyna að leysa úr þessu vandamáli.