151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir góða tillögu. Þetta er sniðug leið til að reyna að takmarka enn frekar þann skaða sem verðtryggingin veldur. Það gladdi mig svolítið að lesa þessa tillögu frá hv. þingmanni. En nú hefur viðhorfið til verðtryggingar sem betur fer breyst á undanförnum árum og ef það hefur ekki gerst þá er það svona í áttina að því að gerast að óverðtryggð lán séu orðin algengari en verðtryggð þegar ný lán eru tekin, sem er mjög góð þróun.

Í fyrri andsvörum kom fram að vaxtastigið er mjög hátt á Íslandi. Þrátt fyrir að hafa lækkað töluvert á síðustu árum er það himinhátt. Það er tvöfalt hærra og jafnvel gott betur en það sem þekkist í Evrópu. Í ljósi þess velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja sýn á hvað þurfi að gera. Þessi breytingartillaga lagar kannski örlítið til skamms tíma en til lengri tíma litið þurfum við að drepa verðbólguna — nei, verðtrygginguna, afsakið, en jú kannski verðbólguna líka, ég veit ekki. En verðtryggingin, við þurfum að losa okkur við hana. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja tiltekna hugmynd um það hvað væri rökrétt skref í áttina að því að losa okkur loksins við þá óværu.