151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

aðbúnaður og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda.

804. mál
[19:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem ekki hingað upp beint til að krefjast svara heldur vil koma á framfæri þakklæti til velferðarnefndar fyrir að fara yfir þetta mikilvæga, viðkvæma og erfiða mál sem við þurfum að skoða mjög vel, halda utan um okkar viðkvæmustu hópa. Ég hlustaði á ræðu og skýrslu formanns nefndarinnar og flutningsmanns og mér sýnist þetta hafa verið unnið í sátt innan nefndarinnar, eins og ég skildi það, það væri kannski eitthvað sem hv. þingmaður myndi upplýsa og hvort hún gerir ráð fyrir því að þessi skýrsla, þessi úttekt, nái að vera tilbúin fyrir desember á þessu ári, eins og ég skildi hv. þingmann. Ég vil um leið þakka fyrir þetta mikilvæga starf og gott að við náum að klára þetta. Ég hefði viljað fá meiri umræðu um þetta mál en við erum á síðustu metrunum hér. Ég ítreka að það er gríðarlega mikilvægt að setja þetta mál í farveg núna áður en við klárum.