151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

aðbúnaður og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda.

804. mál
[19:45]
Horfa

Frsm. velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Skýrslan sjálf á ekki að vera tilbúin eftir sex mánuði heldur það form og þær rannsóknarspurningar sem eiga að liggja fyrir fyrir komandi rannsóknarnefnd til þess að vinna á komandi misserum og væntanlega árum. Þetta er ekki lítið verk en það var samkomulag um það í nefndinni að það væri mikilvægara að vera nær okkur í tíma heldur en fjær til að við getum raunverulega lært eitthvað af þessari rannsókn fyrir meðferð mála í dag, því að við höfum auðvitað fengið fregnir af aðbúnaði sem er í nútímanum. Þess vegna töldum við í velferðarnefnd að það væri mikilvægt að umrædd rannsóknarnefnd fengi mjög afmarkaðar rannsóknarspurningar, fengi afmarkað tímabil sem ætti að rannsaka til þess að við fengjum skýrslu í hendur, fengjum niðurstöðu rannsóknarnefndar, hvort sem hún verður hér hjá Alþingi eða stjórnsýslunefnd, ég sjálf hef um það ákveðnar skoðanir, af því að svona vinna getur auðvitað teygst yfir áramót, ár, árafjölda eða áratugi jafnvel ef maður ætlar að fara of langt og ætlar sér of mikið.