151. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júlí 2021.

minnst látinna fyrrverandi alþingismanna, Braga Níelssonar og Gunnars Birgissonar.

[11:02]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Hv. alþingismenn. Eftir að þingfundum var frestað aðfaranótt 13. júní síðastliðinn hafa tveir fyrrverandi alþingismenn andast, Bragi Níelsson læknir, 13. júní, og Gunnar Birgisson verkfræðingur, 14. júní. Verður þeirra nú minnst.

Bragi Níelsson var fæddur á Seyðisfirði 16. febrúar 1926 og var því á 96. aldursári, elstur allra fyrrverandi alþingismanna. Foreldrar hans voru Níels Jónsson verkamaður og Ingiríður Hjálmarsdóttir, húsmóðir og verkakona.

Bragi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1947 og prófi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1957. Hann aflaði sér sérfræðiviðurkenningar í svæfingum og deyfingum og starfaði lengst af við þau störf, en vann jafnframt að almennum lækningum. Hann er talinn meðal frumkvöðla á sérsviði sínu og naut virðingar stéttarbræðra. Þegar árið 1958, að loknu námi, hóf Bragi störf á Sjúkrahúsi Akraness og þar var starfsvettvangur hans síðan, með stuttum hléum þó.

Bragi Níelsson starfaði lengi innan Alþýðuflokksins á Akranesi og var varabæjarfulltrúi fyrir hann í nokkur ár. Árið 1978 var þessi vel metni læknir valinn í 2. sæti framboðslista flokksins í Vesturlandskjördæmi og hlaut óvænt þingsæti eftir mikinn kosningasigur Alþýðuflokksins það ár. Þing var rofið haustið 1979, er rúmt ár var liðið af kjörtímabili, og kosningar fóru fram í desember. Þá kaus Bragi að víkja af vettvangi þingsins og til fyrri starfa á Akranesi. Þingseta hans varð því stutt, tvö löggjafarþing og annað stóð aðeins nokkra daga. Á Alþingi sat Bragi í heilbrigðis- og trygginganefnd og lét þann málaflokk einkum til sín taka.

Bragi Níelsson naut almennra vinsælda í heimabyggð, bæði fyrir læknisstörf og viðmót, þótti þægilegur og glaðlegur í umgengni, rósamur og traustur maður. Hann kom víða við í félagslífi á Akranesi, svo og á fræðasviði sínu, og var þá jafnan virkur þátttakandi án þess að sækjast sérstaklega eftir forystuhlutverki eða metorðum.