151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

[14:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég átta mig ekki alveg á því til hvers hann vísar þegar hann segir að þetta hafi verið skoðað á fyrri stigum vegna þess að þessi tillaga áhugahópsins sem ég vísaði til er tiltölulega nýtilkomin. Hún er um að hafa sérstaka akrein hægra megin þar sem er mikið álag. Síðan áttaði ég mig ekki á því þegar hæstv. ráðherra talaði um eina akrein sem verði tekin en miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið þá sýnast vera ráðagerðir um að taka tvær akreinar, a.m.k. mestan part. En ég vona það, fyrst hæstv. ráðherra nefnir Keldnalandið, að það komi aldrei til þess að því verði varpað inn í þá hít sem þessi svokallaða borgarlína er.

En af því að Íslandsbanki var nú líka nefndur í sambandi við fjármögnun borgarlínu þá vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvort hann hafi aflað sér upplýsinga um það hversu mikil brögð hafa verið að því að kaupendur á hinu lága hagstæða verði í útboðinu hafi innleyst nú þegar þennan ofsalega skyndihagnað sem þarna er í boði. (Forseti hringir.) Og svo hitt: Hvaða áform eða ákvarðanir hafa verið teknar um ráðstöfun á söluandvirði þessa hlutar í Íslandsbanka sem var boðinn út?