152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er að teiknast upp mynd mjög hratt og hún er að verða mjög skýr að mínu mati. Við lesum það og sjáum í morgun að áður en þingnefndin er búin að koma saman og fá tækifæri til að gegna lögbundnu hlutverki sínu eru þingmenn stjórnarmeirihlutans, örugglega í þökk en ekki í óþökk ríkisstjórnarinnar, farnir að senda mál út til umsagnar. Það er ekki samkvæmt þingræðinu og reglum þingsins. Myndin sem er að teiknast upp — ég man ekki eftir því, og var hér starfsaldursforseti í einhvern tíma, að það hafi verið þannig á síðustu 20 árum að skipað hafi verið í nefndir með afli meiri hluta eins og nú er verið að gera. Það eru ákveðin skilaboð. Það eru ákveðin skilaboð sem verið er að senda með þessum vinnubrögðum núna inn í þingið. Mér finnst miður hvernig ríkisstjórnin byrjar þetta en ekki síst að það er verið að setja sérstakt álag á núverandi virðulegan forseta (Forseti hringir.) í því hvernig eigi að bregðast við. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að taka þessu alvarlega, beina því í þann farveg að virðing Alþingis (Forseti hringir.) verði sem mest og við fáum að virkja eftirlitshlutverk okkar sem skyldi (Forseti hringir.) með framkvæmdarvaldinu.

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmenn um að virða ræðutíma.)