152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um þessa almennu spurningu: Hvernig getum við eflt heilbrigðisþjónustu, hvernig getum við gert betur í vegasamgöngum, í menntamálum, félagsþjónustu og annars staðar, án þess að ég sjái beinlínis í fjárlagafrumvarpinu sem ég held á að milljarðar séu settir í málin? Ég trúi því einfaldlega að með betri stefnumótun, með umbótaverkefnum, með því að gera hlutina, með því að taka í gagnið nýja tækni, með því að efla allan mannauðinn sem ríkið býr yfir þá sé hægt að gera betur víða. Ég er bara alveg sannfærður um það. Ég held að það kosti ekki alltaf milljarða að gera betur. Ég held að við getum haldið úti betri almannaþjónustu með betra verklagi, skýrari verkstjórn og einfaldlega með því að grípa allar þessar góðu hugmyndir sem búa úti í kerfunum um frekari framfarir. Þetta getum við gert til að styrkja okkur á heilbrigðissviðinu, á menntasviðinu, í samgöngum. Við erum að boða það að styrkja landsbyggðirnar. Við viljum nota tæknina t.d. til að geta kennt víðar um landið, nota háskólasetrin. Fjarheilbrigðisþjónusta er dæmi um betri almannaþjónustu sem þarf ekki að kosta neitt meira, gæti meira að segja kostað mun minna. Ef við fjárfestum bara í stofnkostnaðinum kann það að leiða til minni kostnaðar fyrir alla, að geta veitt slíka þjónustu þar sem hennar er þörf. Dæmin eru í raun og veru endalaus. Stafrænt Ísland, öll umbótaverkefnin þar. Þetta er betri almannaþjónusta.

Hvaða skatta gætum við lækkað? Við erum ekki að boða nýjar stórar skattkerfisbreytingar í þessu fjárlagafrumvarpi en við segjum í stjórnarsáttmálanum að skattar geti verið skilvirkt tæki til að bæta kjörin og við tengjum það við þá staðreynd að kjarasamningar eru lausir á kjörtímabilinu og við höfum áður gert það með góðum árangri að skoða skattkerfið í tengslum við kjarasamninga. (Forseti hringir.) En það eru mörg merki nýrrar stjórnar í þessu frumvarpi. Ég nefni sem dæmi vegna ellilífeyris.