152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu og mig langar að gefa ykkur svar. Eins og hér var sagt er Ísland að hækka úr 0,32 upp í 0,35% af vergri landsframleiðslu. Noregur er með 1,02%, Svíþjóð með 0,99%, Danmörk með 0,71%. Eina Norðurlandaþjóðin sem er svona nær okkur er Finnland með 0,42%. Á alþjóðavettvangi er litið mjög upp til Norðurlandanna í þessu samhengi. Það er talað um hversu vel þau standa sig í þessu og Ísland gleymist svolítið í þeirri umræðu af því að við stöndum okkur ekki allt of vel. En við stöndum okkur reyndar vel á ákveðnum sviðum, t.d. í jafnréttismálum og í að styðja marghliða samstarf eins og UN Women. Þar erum við að gera góða hluti, alla vega hlutfallslega og miðað við höfðatölu.

Hv. þingmaður nefndi Norðurlöndin en mig langaði að nefna eitt smáríki í Evrópu, því að kannski þurfum við að bera okkur meira saman við smáríki, og það er Lúxemborg, sem veitir 1,05% af vergri þjóðarframleiðslu í þennan málaflokk. Ég hef einmitt unnið náið með Lúxemborg á vettvangi og það er virkilega ánægjulegt að sjá hvernig það hefur skipulagt sig í þessum málum.