152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, vitaskuld þarf að gæta sanngirni og horfa til þess að við erum umtalsvert fámennari þjóð en Norðurlandaþjóðirnar. En það er líka staðreynd málsins að jafnvel að teknu tilliti til höfðatölu þá er veruleikinn sá sem hann er. En ég er hrifin af því að líta til þess sem vel er gert og reyna að læra af því. Hv. þingmaður nefnir einmitt jafnréttismálin og ég held að við séum nú sem þjóð mjög stolt af rödd okkar í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi. Ég hefði áhuga á að heyra hjá hv. þingmanni: Á hvaða sviðum öðrum, svona í breiðu línunum, sér hann tækifæri fyrir Ísland í alþjóðasamhengi í þessum málaflokki? Hvar eru vaxtarsprotar?