152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og líka fyrir þær upplýsingar sem hún hefur verið að setja hérna fram, að þessi einstaka uppskipting sem þarna átti sér stað hafi kostað 270 millj. kr. samkvæmt áætlun. Svo vitum við náttúrlega ekki hvað hún kostaði þegar upp var staðið. En maður verður hálfhvumsa að heyra slíkar tölur, 270 milljónir, sem eiga að fara í uppskiptingu þarna. Við vitum að það voru bara forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytið sem fengu frið að mestu leyti, allt hitt var sett á flot. Ef þessi tala, 270 millj. kr., væri margfölduð með einhverri tölu sem gæti orðið til þegar við áttum okkur á því hvað er að gerast, hvað fer á milli ráðuneyta og hvaða starfsmenn flytjast til, hverjum þarf að segja upp og hverja þarf að ráða — varðandi þetta nýja ráðuneyti, sem farið er að kalla VIN, þá er búið að ráða fólk til að vinna að því að koma því á koppinn og ekki verður það ókeypis. Það verður fróðlegt að sjá margföldunartöluna í þessu, með hvaða tölu við eigum að margfalda þessar 270 milljónir til þess að fá út endanlega útkomu.