152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Baráttan gegn loftslagsbreytingum er ekkert á borði eins ráðherra heldur alls samfélagsins, ég er alveg sammála ráðherranum með það. Hins vegar eru fjárlagatillögur í loftslagsmálum, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og lög um loftslagsmál á borði ráðherrans. Það væri ekkert að úttala sig af einhverjum glannaskap ef ráðherra loftslagsmála segði hér í 1. umr. fjárlaga hvort fjárlagatillögur ráðherra loftslagsmála endurspegluðu metnað ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eða ekki. Mér finnst alveg ótrúlegt að koma að fullkomlega tómum kofanum hjá ráðherranum. Ég spyr hér skýrra spurninga um fjárlagatillögur á málasviði ráðherrans og hann svarar bara með einhverju japli um að þetta verði skoðað í framtíðinni með einhverjum hagsmunaaðilum og alls konar liði. Það eru áramót eftir þrjár vikur. Á þeim tímapunkti þurfum við að klára þessi fjárlög. Á þeim tímapunkti þarf að liggja fyrir hvað ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að leggja inn í loftslagsmálin, hvort hún ætlar að miða við úreltan metnað eða þann sem hún segist vera með. Ef það koma ekki tillögur um auknar fjárheimildir til loftslagsmála inn í þetta fjárlagafrumvarp þá er það enn eitt glatað ár í loftslagsmálum á ábyrgð Katrínar Jakobsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og annarra hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands.