152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:15]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni við 1. umr. um þessi fjárlög þá fjallaði ég sérstaklega um það æpandi misræmi sem við sjáum milli annars vegar stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar og hins vegar þessa fjárlagafrumvarps. Þar er engin alvörusókn boðuð í menntamálum, í loftslagsmálum, í húsnæðismálum og fleiri málaflokkum sem öll okkar framtíð veltur á. Þau eru líka vond hvað viðkemur almannatryggingum því að svo virðist sem áfram standi til að reka mjög harða skattpíningar- og skerðingarstefnu gagnvart öryrkjum og gagnvart tekjulægra eldra fólki og sérstaklega því sem reiðir sig alfarið á lífeyrissjóðsgreiðslur.

Mig langar til að nýta þessa seinni ræðu mína til að fjalla annars vegar aðeins um heilbrigðismál og hins vegar um þjónustu við fatlaða. En í ljósi þess að hæstv. umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, er hérna í salnum ætla ég að fá að beina til hans nokkrum spurningum hér á eftir og fá aðeins að ræða við hann um umhverfis- og loftslagsmálin.

Fyrst að heilbrigðismálunum. Í aðdraganda þessara kosninga tók ég saman gögn af vef Hagstofunnar og benti á það að sjúkrarýmum hefur fækkað jafnt og þétt miðað við íbúafjölda á Íslandi um langt árabil, úr 335 á hverja 100.000 íbúa árið 2007, þannig var það þá, niður í 227 á hverja 100.000 íbúa árið 2019. Þetta gerðist á meðan þjóðin hélt áfram að eldast, á meðan hlutfall eldra fólks, hópsins, sem helst þarf á sjúkrahúsþjónustu að halda, fór úr 11,5% af heildaríbúafjölda upp í 14,2%, og á meðan varð sprenging í komu ferðamanna til landsins, sem olli auðvitað stórauknu álagi á bráðamóttöku Landspítala, sérstaklega á sumrin. Á þessu tímabili fækkaði beinlínis sjúkrarýmum miðað við íbúafjölda. Á meðan sat náttúrlega uppbygging hjúkrunarrýma á hakanum og rekstur hjúkrunarheimila var stórlega vanfjármagnaður, eins og við þekkjum. Rúmanýting á sjúkrahúsum var um og yfir 100% og það löngu áður en heimsfaraldur skall á. Þetta vitum við. Þetta er langt, langt umfram það sem er svona alla jafna talið ásættanlegt á bráðasjúkrahúsum í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu þekkir þetta allt saman á eigin skinni, hvað þetta er óboðleg staða, hvað þetta veldur ómanneskjulegu álagi og setur jafnvel sjúklinga í hættulega stöðu.

Þetta er nokkuð sem við í Samfylkingunni vöktum sérstaka athygli á og kölluðum eftir úrbótum á síðasta kjörtímabili og sérstaklega síðasta sumar þegar álagið var hvað mest og þörfin á úrbótum hvað brýnust. Hver voru svörin á stjórnarheimilinu? Jú, það kom yfirlýsing frá þáverandi heilbrigðisráðherra um að þessi fækkun legurýma væri bara hið eðlilegasta mál og skýrðist einungis af aukinni framleiðni og framförum í læknavísindum. Það er auðvitað alveg rétt að legurýmum hefur fækkað miðað við höfðatölu út um allan heim eftir því sem læknavísindunum fleygir fram og meðferðarúrræði færast af legudeildum yfir á dagdeildir. Það er staðreynd. En það er samt ekki hægt að líta fram hjá samhengi hlutanna, líta fram hjá því hvernig þessi fækkun hefur átt sér stað samhliða veldisvexti í komu ferðamanna og þeirri staðreynd að Ísland er í þeim hópi Evrópuríkja, þar sem gjörgæslurúm eru fæst miðað við mannfjölda og þeirri staðreynd að Ísland er í hópi þeirra Evrópuríkja þar sem rúmanýting á spítölum er mest. En þetta voru engu að síður viðbrögðin úr herbúðum stjórnarmeirihlutans. Það er bara látið eins og fækkunin sé einhvern veginn hið eðlilegasta mál og allt bara vegna tækniframfara.

Í ljósi þessa þessara sjónarmiða, sem við heyrðum bara nokkrum vikum fyrir kosningar, kemur það þægilega á óvart að í þessu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir sérstökum framlögum til að fjölga legurýmum. Það kemur bara mjög þægilega á óvart. Það er gott. Þarna erum við m.a. að tala um 510 milljónir til reksturs hágæslurýma í Fossvogi og Hringbraut. Það er engu að síður ljóst að Ísland verður áfram eftirbátur annarra norrænna ríkja þegar kemur að fjölda gjörgæslurýma.

Hér er talað um sérhæfðu sjúkrahúsþjónustuna og það verður fróðlegt að skoða betur það málefnasvið og meta þróunina, sérstaklega eftir að umsagnir berast frá sjúkrahúsum.

Í allri umræðu um heilbrigðismálin þurfum við að hafa það í huga að raunframlög til rekstrar Landspítala miðað við íbúafjölda — þetta eru þau viðmið sem við þurfum að horfa til — hafa ekkert aukist að neinu ráði á undanförnum árum. Og eins og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor hefur bent á og sýnt fram á með athyglisverðum útreikningum í tímaritinu Vísbendingu, má alveg færa fyrir því gild rök með því að líta til verðhækkana og launahækkana, með því að horfa á stóru myndina, að fjárframlög hins opinbera til Landspítalans hafi ekki aukist jafn mikið og þörfin fyrir sjúkrahúsþjónustu á síðustu árum.

Þegar kemur að almennri sjúkrahúsþjónustu sjáum við beinlínis lækkun milli ára í þessu frumvarpi og auknu fjárveitingarnar sem fara inn í heilbrigðiskerfið á næsta ári eru fyrst og fremst Covid-tengdar, heimsfaraldurstengdar. Við munum auðvitað skoða þetta betur í nefndunum, en ég er ekkert viss um að þessi aukning dugi til að treysta fjárhagslegan grundvöll heilbrigðiskerfisins, létta álagi af heilbrigðisstofnunum o.s.frv., hvað þá til að stíga einhver skref í átt að eflingu mönnunar.

Þá að málefnum fólks með fötlun. Nú eru liðin tvö ár síðan Alþingi samþykkti þingsályktun okkar í Samfylkingunni um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Það eru tvö ár síðan. Samkvæmt þeirri þingsályktun átti að vera búið að lögfesta samninginn í desember 2020, fyrir ári síðan. Ríkisstjórn Íslands og þáverandi ráðherra málaflokksins áttu að grípa til ráðstafana og undirbúa lögfestinguna í samræmi við þessa dagsetningu, 13. desember, minnir mig. Þetta voru einfaldlega tilmælin sem Alþingi gaf. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur flaskaði á þessu á síðasta kjörtímabili. Svo kynnir hún það með pompi og prakt í stjórnarsáttmála um síðustu helgi að samningurinn verði lögfestur á því kjörtímabili sem nú er að hefjast. Margir fögnuðu því, auðvitað. Þess vegna eru það alveg sérstök vonbrigði að sjá núna fjárlagafrumvarp þar sem til stendur að lækka framlög til málefna fatlaðra milli ára. Það er ekki bara að framlögin lækki núna milli ára heldur eiga þau samkvæmt þeim útgjaldarömmum sem unnið er eftir, sem fylgja í fylgiritinu með frumvarpi til fjárlaga, bara að halda áfram að lækka á hverju einasta ári þessa kjörtímabils. Hvernig í ósköpunum samrýmist þetta eiginlega fyrirheitunum í stjórnarsáttmála um að bæta kjör og auka réttindi og eftirfylgni með réttindum fólks með fötlun? Ég skil það ekki.

Þjónusta við fatlað fólk var færð frá ríki til sveitarfélaga 2011 og þessi nauðsynlega grunnþjónusta hefur kostað miklu meira en framlög jöfnunarsjóðs og viðbótarútsvar hafa staðið undir. Ef við einskorðum okkur bara við Reykjavíkurborg þá erum við að tala um 13,3 milljarða umfram tekjur á tímabilinu 2011–2019. Þetta er halli sem hefur bara vaxið jafnt og þétt yfir árin. Þetta er auðvitað þekkt stef og hefur verið það á undanförnum árum og jafnvel áratugum, að kostnaði við nauðsynlega grunnþjónustu, m.a. við fólk með fötlun, er velt yfir á sveitarstjórnarstigið án þess að fjármagn fylgi. Fjárlagafrumvarpið er í framhaldi af því.

Áður en tími minn klárast ætla ég að víkja að umhverfis- og loftslagsmálum, fyrst hæstv. ráðherra er svo elskulegur að vera hérna með okkur.

Samkvæmt stjórnarsáttmála og orðræðunni í kringum hann átti þetta að vera eitt af stóru málunum. Það munar um 55% sjálfstætt loftslagsmarkmið. Það er allt annað en við sáum á síðasta kjörtímabili þar sem ríkisstjórn Íslands studdist við miklu fátæklegri loftslagsmarkmið en löndin í kringum okkur. Nei, við munum ekki ná Danmörku með 70% markmið en Dönum gengur heldur ekki vel að ná því markmiði. En 55% sjálfstætt landsmarkmið skiptir máli. Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi ákveðið að styðjast við það markmið.

En hvernig í ósköpunum stendur þá á því að frá því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, eins og hún var á síðasta kjörtímabili, var kynnt, og núna þegar kynnt eru ný fjárlög, þá hefur ekkert breyst í loftslagsmálunum, í umhverfismálunum, þ.e. þegar kemur að útgjöldum og tekjum ríkisins. Hvernig stendur eiginlega á því? Það er verið að setja uppfært loftslagsmarkmið en það birtist hvergi í þessum römmum. Mér fundust það góðar spurningar sem komu fram áðan: Hvers vegna endurspeglast ekki aukinn metnaður í þessu fjárlagafrumvarpi? Hvenær kemur fram uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum? (Forseti hringir.) Má búast við því að stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) styðji tillögur, aukinn metnað í loftslagsmálum (Forseti hringir.) núna milli umræðna, bæði á útgjaldahliðinni og tekjuhliðinni þegar kemur að því að hraða orkuskiptum (Forseti hringir.) og taka stærri skref í loftslagsmálum?