152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:05]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir krefjandi spurningar. Það er alls ekki þannig að fjórum árum hafi verið sóað og það er ekki þannig að sá sem hér stendur mæti og það sé bara ekkert á borðinu og það þurfi að byrja alla vinnu. Það er alls ekki þannig, sem betur fer. Það er hins vegar þannig, og það er alveg rétt og við skulum ekki vera að ræða það neitt öðruvísi, að það eru auðvitað mismunandi sjónarmið í öllum þessum málaflokkum á milli stjórnarflokkanna. Það getur verið galli en það getur líka verið kostur því það þarf hvort eð er að taka þá samræðu og vonandi næst samstaða þar sem allir þurfa að gefa eftir eða að vera jafn óánægðir eða hvernig sem menn orða það. Hálendisþjóðgarður gengur út á miklu meira en það hvort það sé einhver orkunýting þar eða ekki, það er svo margt fleira sem þar er inni sem kom fram þegar umræðan fór af stað. Þá rifjaðist líka upp reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði, bæði það sem er jákvætt og það sem er neikvætt. Hv. þingmaður tók ákveðna þætti út eins og þann sem snýr að fiskimjölsverksmiðjunum. Auðvitað er það ekki gott, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, þegar við sem höfum sagt af góðri ástæðu að við séum hér með alveg einstaka stöðu þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum, þegar við fáum fréttir sem þessar.

Þetta er allt saman eitthvað sem menn þurfa að líta til og taka afstöðu til og ég vona að menn muni alla vega nálgast það þannig, sama hvaðan þeir koma, að byrja ekki í skotgröfunum heldur byrji þeir á því að skoða þetta út frá stöðu sem er, bara þeim staðreyndum sem liggja á borðinu. Það hefur verið unnið að því að gera það eins vel og hægt er þannig að allir þeir sem taka þátt í umræðunni hafi jafn góðan aðgang að raungögnum, ef þannig má að orði komast, og valkostum. Ef við getum komist á þann stað þá ætti umræðan að verða auðveldari. En höfum það alveg á hreinu: Þetta verður ekkert einfalt. Fyrir utan það að þegar menn verða búnir að ná samstöðu (Forseti hringir.) og við ætlum að ná þessum stóru markmiðum þá er það ekkert smáverk. Ég er ekki að segja mönnum að kvíða verkefninu, alls ekki. Ég er bara segja að þetta er mjög stórt verkefni sem varðar alla.