152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvörin. Það er svolítið sérstakt að vera í þessari stöðu, ég fæ ekki fleiri svör frá hæstv. ráðherra. Þetta snýst svona við og það er ágætt. Það er auðvitað alveg rétt og ég sagði það líka að hálendisþjóðgarður snýst um annað og meira en orku. En af því að ég var nú í þessari nefnd og fylgdist vel með málinu á síðasta kjörtímabili þá var það líka þannig, og ég stend við það, að margt af því sem tínt var til í andstöðu við þetta mál var í orði og orkumálin voru á borði. Það sem ég hef ákveðnar áhyggjur af núna er að ef við ætlum að fara í þetta verkefni og styðjast við verndarflokka sem heimila orkuöflun innan þjóðgarðsins þá þarf það að vera uppi á borðinu í gagnsæju ferli þannig að það liggi ekki undir, gleymist í umræðunni, af því að menn eru að togast á um skipulag sveitarfélaga eða skipulagsmál eða samstarf við sveitarfélög eða ferðamennsku eða vegi eða eitthvað og láti þetta — ég er að vanda mig að sletta ekki, frú forseti — einhvern veginn fljóta með undir radar af því þetta er mál sem varðar framtíðarhagsmuni okkar, hvernig við leysum þetta. Þetta var bara svona brýning.

Að lokum langar mig að gera eitt og það er eiginlega í ljósi þess að hæstv. landbúnaðarráðherra sá sér ekki fært að mæta. Nú eiga hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og ráðherra landbúnaðar það sameiginlegt að vera fyrrverandi heilbrigðisráðherrar, voru þar sannarlega hvor á sínum endanum. En spurningin er hvort þeir nái samstöðu, annars vegar ráðherra loftslagsmála og hins vegar ráðherra landbúnaðarmála, í að vinna að því stóra lykilatriði sem er að kippa styrkjakerfi landbúnaðarins til nútímans fyrir bændur, fyrir neytendur og fyrir loftslagið. Ég ætla að brýna hæstv. ráðherra í að taka þann bolta.