152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:12]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni kærlega fyrir andsvarið. Mér finnst þetta mjög gleðileg umræða og það gleður mig sérstaklega, með hæstv. loftslagsráðherra með meiru hér í salnum, að þetta beinir athyglinni að Evrópusambandinu vegna þess að þar er að finna býsna margar leiðir til samstarfs. Stefna Evrópusambandsins, tiltölulega nýleg, „Green Deal“, býður einmitt upp á marga möguleika til samstarfsverkefna, ekki bara hjá hinu opinbera heldur hvetur hún bókstaflega lítil og meðalstór fyrirtæki til að leita fanga með hugmyndir sínar og til að fá styrki.

Ég tek heils hugar undir að við eigum að vera það land sem er í fararbroddi næstum því á hvaða sviði sem er þegar kemur að grænum lausnum. Við höfum allt sem þarf. Við höfum menntunina, menntastigið. Við höfum tenginguna okkar í netið, við erum tiltölulega einsleitt samfélag þannig að það er auðvelt að keyra svona verkefni af stað. Við höfum orkuna okkar og það sem meira er, við höfum eftirspurnina, vegna þess að við erum enn þá að kljást við það hvernig tryggja megi jafnrétti til mennta og heilbrigðis í okkar dreifðu og fámennu byggðum. Það er með nýsköpun í grænum lausnum, fjarheilbrigðisþjónustu, alls konar tækifæri í menntun. Við eigum að keyra á þetta. Ég er þeirrar skoðunar, það er mín sýn í stjórnmálum, að ég myndi að miklu leyti vilja sjá þetta gerast í gegnum græna samkeppnissjóði þar sem styrkir eru veittir í verkefni og þau studd áfram. Þannig að já, ég tek heils hugar undir þetta verkefni, þessar hugmyndir, og tel að við eigum að vera þar í fararbroddi.

Svo langar mig aðeins að tala um hvernig við getum aðstoðað aðrar þjóðir sem eru verr staddar í þeim verkefnum sem við erum komin lengst í, eins og hv. þingmaður nefndi varðandi jarðvarmann og annað, en ég kem kannski að því á eftir.