152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég var ekki alveg viss hvort ég ætti að fara í andsvör eða halda ræðu og ég valdi bara ræðu. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir frumvarpið og ég hefði mjög gjarnan viljað vera meðflutningsmaður á því en það gafst ekki tími til þess að skoða málið nægilega vel, það er svo margt að gera þegar maður er nýr þingmaður.

Fyrir mér er þetta frumvarp ekkert pólitískt frumvarp, það er bara faglegt frumvarp. Við erum með 13. gr. laga um stjórn fiskveiða sem kveður á um kvótaþakið, að lögaðili megi ekki eiga yfir ákveðnu hlutfalli af heildaraflahlutdeild ákveðinna tegunda, það megi ekki fara yfir ákveðið þak, ákveðna prósentu. Þá þarf að skilgreina hver einstaklingurinn er, hver hinn raunverulegi eigandi er. Einstaklingur getur ekki átt kvóta, farið yfir kvótaprósentuna í gegnum lögaðila eða í gegnum aðrar leiðir en sem einstaklingur. Ég vona bara að þetta verði samþykkt og málið búið, þetta er ekki flókið mál. Ég vona að allir skilji þetta.

Ég hef ákveðna þekkingu á þessu máli. Ég var að vinna hjá fjármálaeftirlitinu 2006 og 2007, ráðinn þar um miðjan júní eða júlí og bara strax eftir helgina fór ég til Parísar á fund FATF, Financial Action Tax Force, sem semur allar reglurnar um peningaþvætti, það er þaðan sem þetta allt kemur. Það eru orðnar miklar kröfur þar, sérstaklega eftir 11. september þegar fjármögnun hryðjuverka kom inn. Þar er raunverulegur eigandi lykilhugtak, á ensku „beneficial owner“. Ef bankar eru ekki með það á hreinu þá vita þeir ekki hverjir viðskiptamenn sínir eru. Svo einfalt er það. Ég er bara svolítið hissa á því að við séum að fjalla um þetta núna í þessari mikilvægu löggjöf á Íslandi, að við séum ekki með þetta algerlega á hreinu í þessari mikilvægu löggjöf. Við þekkjum allt þetta bix í kringum hrunið, það fer til Karíbahafsins, á Tortólu og það allt. Ef þú ætlar að svindla á skatti eða koma peningum undan þá reynirðu að svindla á hugtakinu raunverulegur eigandi. Býrð til röð fyrirtækja og þá er spurningin: Hver á það? Á Tortólu geta fyrirtæki og lögaðilar setið í stjórn og annað slíkt, ég þarf ekkert að fara út í það. Mér finnst það algert grundvallaratriði varðandi þessa löggjöf og 13. gr.

Þá er spurningin þessi: Viljum við að 13. gr. sé virkt ákvæði eða ekki? Það er það sem þetta snýst um og ekkert annað. Ef það er einhver ágreiningur um þetta þá væri mjög gaman að hv. þingmenn kæmu bara í pontu og segðu sig vera andsnúna þessari löggjöf. Þá spyr ég í leiðinni: Hvað erum við þá að gera með 13. gr.? Ef hún á að vera virkt ákvæði þá verður þetta að vera á hreinu. Það verður að vera algerlega skilgreint hver raunverulegi eigandi er, þ.e. samkvæmt lögum um peningaþvætti og lögum um fjármálafyrirtæki. Af hverju er þetta þar? Það er af því að fjármálastofnanir þurfa að vita hver eigandi peninganna er og hverjum má lána. Það er það verðmæti sem bankarnir eiga, það er þekkingin á kúnnanum. Það sama er með raunveruleg yfirráð og tengda aðila. Ég get lesið hér upp úr frumvarpinu, með leyfi forseta: „Hjón, sambúðarfólk, börn þeirra og fósturbörn og lögaðilar í þeirra eigu.“ Það bætast við tveir liðir þarna sem tengdir aðilar, ég meina, hjón eru tengdir aðilar, ég vona það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég styð frumvarpið heils hugar og ég trúi ekki öðru en að það verði samþykkt, það gerir þetta ákvæði raunverulega virkt. Ég lít ekki á þetta sem pólitískt mál. Við getum haft okkar skoðun á kvótakerfinu en þetta er löggjöf, 13. gr., og ef fólk er á móti 13. gr. þá er mjög gott að hafa óskýrt hugtak um raunverulegan eiganda og hverjir eru tengdir aðilar og hvað eru raunveruleg yfirráð. Það er það besta sem þú gerir, hefur ákvæðið en hefur svo allt hitt óskýrt. Það er blöff. Það er verið að plata þjóðina með því að hafa 13. gr. ef þessar skilgreiningar eru ekki algjörlega á kristaltæru. Þá er verið að gera það. Þá er spurningin bara: Eigum við að leyfa því að vera þannig áfram? Ég er ekki að segja að það sé verið að gera í dag en þetta er spurning um virkni ákvæðisins.