152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það kemur mér kannski svolítið á óvart að ég og hv. þm. Ásmundur Friðriksson getum verið sammála um nokkur atriði þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni. Það er kannski til marks um það að við höfum ekki mikið rætt saman um þessi mál. Hv. þingmaður talar hér um óunninn fisk og ég tek undir með honum að það hefur verið sárt að horfa upp á fiskvinnslur sem þurfa að treysta á markaðinn fara á fiskmarkaði til að ná sér í hráefni til að vinna úr, því að of margar fiskvinnslustöðvar í okkar kjördæmi hafa þurft að hætta og loka vegna þess að þær hafa ekki ráðið við samkeppnina við stærri aðila sem kaupa óunninn fisk og flytja hann úr landi. Þá er spurning: Hvað er til ráða? Einu sinni var gjald, sérstakt útflutningsgjald á þá sem seldu óunninn fisk úr landi. Finnst hv. þingmanni að við eigum að gera eitthvað slíkt? Eða væri kannski líka samhliða þessu hægt að skylda útgerðir til að fara með a.m.k. fjórðung af kvótanum sem þær fá úthlutað á fiskmarkað hverju sinni? Þá væru fleiri fiskar á fiskmarkaðnum, það verður ekki þetta jaðarverð sem myndast þegar fáir fiskar eru til sölu á fiskmarkaðnum og það væri meiru úr að spila, en það þyrfti auðvitað að gæta þess að stórir erlendir aðilar eða íslenskir aðilar með fiskvinnslu erlendis ryksugi ekki upp allan fiskmarkaðinn.