152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi reyndar aldrei evruna, ég nefndi gjaldmiðilinn krónuna. En hv. þingmaður getur sér rétt til að við erum sammála um að evran er valkosturinn sem við eigum að horfa á. Sá gjaldmiðill gæti í rauninni skapað almenningi miklu meiri fyrirsjáanleika, ekki síst á húsnæðismarkaði, ódýrari matarkörfu auðvitað, með lægri vöxtum og öðru slíku, en ekki síst þeim atvinnugreinum sem stjórnarsáttmálinn talar dálítið fjálglega um að við þurfum að leggja áherslu á, nýsköpunargreinunum sem eru mjög háðar því að við séum í stöðugu umhverfi. Við höfum séð dæmi um að allur hagnaður hafi bara fokið út um gluggann hjá mjög merkilegum og góðum fyrirtækjum á nokkrum mánuðum vegna gengisbreytinga. Þannig að um þetta erum við hv. þingmaður sammála.