152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir fyrirspurnina. Þetta er að mörgu leyti frábær fyrirspurn vegna þess þetta er nefnilega oft grundvallaratriði sem komið hefur fram hér í umræðunni, þ.e. endurskoðun almannatrygginga og allar þær nefndir sem hafa tekið á því máli og tíminn og skýrslurnar og pappírsstaflinn sem hefur farið í þetta. Ég veit ekki hversu mikið það er. Ég var í Péturs Blöndals nefndinni og ég var í síðustu nefnd og því miður hefur allt þetta nefndastarf og það allt strandað á einföldu atriði, það er það að reyna að þvinga fólk inn í eitthvert kerfi sem er búið til af fólki sem hefur aldrei lifað hinum megin við vegginn. Að segja við einhvern sem er þarna úti og er búinn að lifa í þessum aðstæðum í einhver ár, jafnvel tugi ára, að nú ætlum við bara að búa til fullkomið kerfi, við sem erum hér á þingi sem höfum aldrei verið í þessu kerfi, við erum búin að finna alvörulausnina og við ætlum bara að þvinga ykkur inn í þetta kerfi. Dauðadæmt frá byrjun. Eina leiðin inn til að búa til svona kerfi er að tala við þá sem eiga að fara inn í kerfið, fá þá að borðinu, láta þá sem eru þar og félögin sem eru að berjast fyrir þessa einstaklinga koma að borðinu og búa til kerfi og fara eftir því. Ég er alveg sannfærður um að það væri hægt að gera. Og eins að gera eins og t.d. Svíarnir gerðu þegar þeir buðu öllum að fara út og finna sér vinnu og vera skerðingarlausir í tvö ár. 30% skiluðu sér ekki til baka, vegna þess að þarna fór fólk á sínum forsendum en ekki á forsendum þeirra sem bjuggu til eitthvert kerfi.