Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:37]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur í máli sínu inn á punkt sem á kannski meira við 4. áfanga rammaáætlunar en fyrst verið er að minnast á þetta, þá er ég að tala um mögulega stækkun aflstöðvanna í Þjórsá. Þar er talað um þrjár stöðvar, 210 mW í uppsettu afli ef ég man rétt. Það eina sem þarf að gera er að stækka húsin og koma búnaðinum fyrir. Annað gerist ekki.

En mig langaði að fá fram afstöðu hv. þingmanns, og kannski afstöðu þingflokks Pírata og Pírata almennt um að móta stefnu. Hann talaði um að það þyrfti að dæla vatni aftur upp fyrir lónin, með rafmagni væntanlega, en ég held nú að hugmyndafræðin á bak við hugmyndir um að stækka aflstöðvarnar þannig að hægt sé að hleypa meiru í gegn sé samspil við vindorkuna. Það vill svo til að kannski erum við best sett af öllum þjóðum í Evrópu með það að láta vindafl og vatnsafl spila saman og getum þá nýtt raforkukerfi þjóðarinnar í heild sinni miklu betur.

Þegar við vorum að vinna í orkustefnunni sem kom inn í þingið í fyrra, gott plagg og vel unnið af öllum átta þingflokkum síðasta kjörtímabils og í þverpólitískri sátt, þá kom í ljós hve raforkukerfið á Íslandi er illa nýtt. Það væri hægt að efla nýtinguna og þess vegna var ég að minnast áðan á flutningskerfi raforku, að það væri alvöruraforkukerfi. Síðan eru möguleikar í vindafli.

Hver er afstaða hv. þingmanns varðandi þetta? Ég held að hugmyndafræðin á bak við að nýta aflstöðvarnar betur í vatnsafli, þær geta spilað með vindorkunni sem ég fer kannski betur í á eftir.