Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Bara aðeins að spyrja út í fyrirvara þingflokks Framsóknar, sérstaklega setninguna, með leyfi forseta:

„Það liggur fyrir að gagnrýni hefur verið uppi um málsmeðferð 3. áfanga rammaáætlunar um að mat faghópa 3 og 4 hafi ekki verið hluti af matsferlinu.“

Hérna vil ég spyrja, vegna þess að það kemur ekki fram í þessari setningu: Hver hefur sett þessa gagnrýni fram? Ber að skilja það svo að þingflokkur Framsóknar sé að gagnrýna að mat faghópa 3 og 4 hafi ekki verið hluti af matsferlinu, bara svo það sé alveg á hreinu? Og síðan, vegna þess að þetta er náttúrlega nokkuð almennt orðaður fyrirvari um að það eigi að fara að grisja hluti niður í biðflokk, þá erum við með tæmandi lista af virkjunarkostum í þessu plaggi. Það eru 18 kostir í nýtingu og það eru 16 í vernd. Í raun eru þeir færri, t.d. er friðlýsing vatnasviðs Skjálfanda afgreitt með fjórum kostum í vernd en er í rauninni bara ein stór og jákvæð ákvörðun í þágu náttúruverndar. Liggur fyrir hvaða virkjunarkosti þingflokkur Framsóknar á sérstaklega við, til hvaða kosta er horft þegar beðið er um að fjölga virkjunarkostum í biðflokki? Það eru þessar tvær spurningar núna.