Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég byrji á upprifjuninni var ég að velta fyrir mér, ekki hvort við ættum endilega að taka samtal um vindorkuna, heldur hvort það væri von á einhverju frá ríkisstjórninni á næstunni varðandi hana í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna. Í ljósi þess að við vorum með frumvarp til afgreiðslu síðasta vetur ætti vinnan jafnvel að vera fljótunnin. En það sem mig langaði að spyrja um í mínu síðara andsvari var annað og er í framhaldi af því sem kom fram hjá hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur um að Framsóknarflokkurinn styðji það að samþykkt verði einhvers konar allt öðruvísi rammaáætlun en við erum að ræða hér í dag, að þetta sé bara stjórnartillaga svona hálfpartinn. Við vitum ekki alveg hvernig þau vilja breyta henni en einhvern veginn vilja þau breyta henni. Mig langar að spyrja hvort sama sé uppi á teningnum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins standi að baki tillögu ráðherra eins og hún kemur frá ráðherra, sem er nú venjan þegar stjórnartillögur eru lagðar fram, sérstaklega hjá þingflokki ráðherrans sem leggur þær fram. Það er bara þetta, hvort gerðir hafa verið fyrirvarar af hálfu Sjálfstæðisflokksins við tillöguna eins og Sjálfstæðisflokkurinn lagði hana fram og hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni einhenda sér í það verk með Framsókn að samþykkja einhverja allt aðra rammaáætlun en ráðherra málaflokksins leggur hér fram í nafni ríkisstjórnar.