Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:28]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrr í dag kynnti hæstv. ráðherra rammaáætlun um hvar skuli virkja næst, áætlun sem hefur verið lögð fram nær óbreytt frá 2016. Það er vert að hafa í huga að Alþingi hefur ekki afgreitt þessa áætlun í öll þessi ár. Það er til fræg tilvitnun, kennd við Einstein, sem segir að það sé skilgreiningin á geðveiki að reyna sama hlutinn aftur og búast við nýrri niðurstöðu. Í þessum lista eru t.d. lagðar til virkjanir sem eru nú komnar á skilgreint hættusvæði vegna Reykjaneselda. Þarna eru virkjanir sem meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst sig andvígan. Það að reyna að þrýsta þessari tillögu í gegn aftur og aftur án nokkurra breytinga er jafn viturlegt og berja hausnum við steininn. Hæstv. ráðherra segir að það sé þingsins að fjalla um þetta mál. Rétt er það. En slíkt fríar hann ekki frá þeirri ábyrgð að það er hæstv. ráðherra sem leggur fram þessa áætlun sem þingsályktunartillögu. Ef hæstv. ráðherra vildi ná einhverri sátt um þetta mál hefði hann átt að vera í því hlutverki að uppfæra þessa áætlun og koma með uppfærða tillögu.

Það er margt sem má betur fara í þessu ferli en það er einnig mikilvægt þegar þessi mál eru rædd að horfa á meira en bara það hvar við ætlum að virkja. Það er nefnilega þannig í dag að mikið af okkar raforkukerfi er komið til ára sinna. Byggðalínan sem er grunndreifikerfið er að nálgast fimmtugsaldurinn. Hæstv. ráðherra er tíðrætt um aukna orkuþörf vegna orkuskipta og það er hv. þingmönnum líka en sannleikurinn er sá að það er næg orka virkjuð í dag. Það eru hins vegar takmarkanir á því hvert er hægt að dreifa henni og þar að auki tapast mikið af orku á leiðinni frá virkjunum til notenda. Á þessum sviðum hafa orðið miklar tækninýjungar á þeim áratugum síðan kerfið var byggt upp. Samhliða því að skoða hvar eigi að virkja þarf að skoða vel hvaða tækifæri eru í að nýta betur þá orku sem þegar er virkjuð en ekki bara einblína á að fjölga virkjunum. Það er mikilvægt að þegar kemur að jafn mikilvægum atriðum og virkjunaráætlunum og vernd umhverfisins að um slíkar áætlanir séu breið sátt, ekki bara á Alþingi heldur í samfélaginu öllu.

Við sem hér sitjum skuldum þeim kynslóðum sem erfa þetta land að hætta í þeim sandkassaleik sem tíðkast á þinginu og setjast af alvöru niður með sátt í huga og finna hvaða leiðir er hægt að fara til að tryggja bæði umhverfið og á sama tíma gera okkur kleift að ganga í gegnum orkuskipti og önnur tækifæri á næstu áratugum. Fyrsta skrefið í því sáttaferli er ekki að reyna að þrýsta í gegn gömlum tillögum sem engin sátt er um. Það er hlutverk hæstv. ráðherra að sýna þinginu þann sáttavilja að leggja fram uppfærða áætlun þar sem a.m.k. þeir kostir sem mest óánægja er með, nú eða kannski eru komnir á hættusvæði vegna eldgosa, séu fluttir úr nýtingarflokki. Ég skora því á hæstv. ráðherra að taka slíkt sáttaskref og leggja strax fram breytingartillögu frá ráðuneytinu inn í nefndastarfið. Ég skora einnig á hæstv. ráðherra að vera tilbúinn til að fara í samstarf við þingið. Þá á ég bæði við stjórn og stjórnarandstöðu, samstarf um orkumál og orkuskipti. Það er staðföst trú mín að ef hæstv. ráðherra brýtur odd af oflæti sínu og brýtur þá hefð að vilja helst ekki vinna með stjórnarandstöðunni í neinu þá sé hægt að ná fram árangri.

Við getum ekki bara bent á græna framtíð en á sama tíma eyðilagt þá náttúru og það umhverfi sem við erum svo heppin að kalla vort land. Ég minni hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á þau fögru orð sem andvökuskáldið Stephan G. Stephansson orti, með leyfi forseta:

Eg ann þér, eg ann þér, þú indæla jörð!

Sem elur upp manninn og dýranna hjörð,

Með leikandi smábörn í almóður arm',

Með ellina hvílda við friðsælu barm —

Þú opnar mér faðminn þinn fagnaðarrík,

Þú fæst ekki um trú mína og pólitík.

Sem land og þjóð höfum við mikla sérstöðu á þessum tímum mikilla breytinga. Þau tækifæri sem hér leynast til að ná fram orkuskiptum og loftslagsvænum árangri í sátt og samlyndi við móður náttúru getur ekki einungis verið heillaspor fyrir okkur Íslendinga heldur einnig skapað tækifæri fyrir okkur að vera leiðandi á þessu sviði og miðla þeirri þekkingu og reynslu til annarra þjóða. En til þess þurfum við að vera tilbúin að vinna saman, grafa stríðsaxirnar og sá þeim fræjum sem þarf til að byggja upp grænt samfélag framtíðarinnar. Núverandi vinnulag hér á landi og sér í lagi á þingi er greinilega ekki að virka.

Mig langar að ljúka þessari ræðu með annarri tilvitnun í andvökuskáldið sem unni þessu landi svo mikið, með leyfi forseta:

Lítil þjóð á þeirri eyju

þolað hefir margt,

reynt um aldir afl og seigju

eðli lands við hart.

Öllum þjóðum öðrum smærri,

ýmsum meiri þjóðum stærri,

ef menn virtu vits og anda

verkin allra þjóða og landa.