Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:52]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna og þakka líka forystumönnum stjórnarandstöðunnar fyrir að sýna því skilning að ég þurfti aðeins að skjótast meðan á þessu stóð. Ég er búinn að fá upplýsingar um hvað gerðist í umræðunni þegar ég var ekki á vettvangi og finnst í það heila, ég verð bara að segja eins og er, að umræðan hafi verið málefnaleg og uppbyggileg og mér finnst það gott.

Auðvitað mun kannski margt koma í ljós þegar menn fara að ræða þetta, þ.e. þegar búið er að velta upp allra handa spurningum, það tengdist líka umræðu sem hv. þm. Bergþór Ólason hafði forgöngu um í morgun þar sem við vorum að tala um stöðuna á raforkumarkaði. Burt séð frá öllum römmum og öðru slíku þá er það alveg sér, það er ákveðin vinna sem við erum að fara í og hefðum gert það hvort heldur sem er. Þetta er auðvitað ekki þannig málaflokkur að ekki sé hægt að bæta við. Margir tala eðlilega um að að það þurfi að hafa heildarmyndina og annað slíkt og það er mjög mikilvægt að hafa eins mikið undir og mögulegt er en menn munu alltaf geta bætt við og sagt: Það þarf meira. Eins og hér hefur komið fram er þróunin mjög hröð í þessu og í mjög mörg horn að líta, en aftur, út af þessari vinnu líka, en líka bara fyrir þjóðina, þá fórum við í grænbókarvinnuna sem er verið að vinna mjög mikið að. Og hvað á grænbókin að gera? Grænbók er stöðumat, ekki stefna, til að draga fram stöðu flutningskerfisins. Hvar eru töpin og hvar eru veikleikarnir? Hvar eru flöskuhálsarnir og hvað er hægt að gera til að fá betri nýtingu? Hvað erum við að virkja mikið? Hvað er hægt að fá fram t.d. með því frumvarpi sem ég tilkynnti að ég legði fram um stækkun virkjana? Hvað þurfum við mikið í orkuskiptin? Þetta á allt að koma fram í grænbókinni til að aðstoða hv. þingmenn og þjóðina, því að ég vonast til þess að það séu fleiri aðilar en bara þingmenn sem hafi áhuga á þessu mikilvæga máli, til að móta sér skoðun og taka ákvörðun.

Við erum ekki búin að klára áfanga í níu ár. Fyrsti áfanginn var samþykktur 1999–2000. Í lögunum er gert ráð fyrir að ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti sé komið fram með áfanga. Mikið er búið að breytast frá því að menn byrjuðu á þessu og mikið mun breytast í framtíðinni. Þetta verklag er bæði opið og gagnsætt og svo sannarlega koma margir að því. Hv. þm. Bergþór Ólason var að vísa til þess að bara núna í þinginu liggja fyrir mjög margar umsagnir vegna þess hve oft málið hefur komið fram. Það er búið að velta við flestum steinum. Þó að auðvitað sé mikilvægt að fara yfir hlutina aftur þá erum við með gríðarlega mikið af gögnum til að byggja ákvarðanir okkar á. Það er algjörlega óumdeilt. Ég veit ekki hvort það var einhver misskilningur, ég hef ekki talað nógu skýrt, en mér fannst hv. þm. Björn Leví Gunnarsson tala eins og mér fyndist að þetta ætti að vera einhver umræðuvettvangur og við ættum alls ekki að klára verkið. Ég vek bara athygli á því að það er fullkominn misskilningur. Ég sagði, að ég taldi skýrt, í ræðu minni að það væri mikilvægt að menn kláruðu þetta. Ég hef sannarlega oft tekið þátt í nefndarstarfi í þinginu. Það er alveg eðlilegt að þingmenn segi: Við fáum svo skamman tíma, þetta er of lítill tími til að afgreiða mál og maður er óöruggur um þetta. Það er ekki hægt að segja um þetta mál. Það kemur núna mjög snemma fram. Það eru margir mánuðir fram undan fyrir hv. nefnd til að vinna þessi mál þannig að tíminn er ekki ástæðan fyrir því ef menn vilja ekki klára þessa hluti.

Það sem er erfitt í þessu — menn tala um mismunandi sjónarmið og mismunandi flokka, jú, án nokkurs vafa er það erfitt. Ég held að það sé aldrei auðvelt, alveg sama hvaða einstaklingur fengi þetta verkefni. Ég held að fyrir fáa væri mjög einfalt að taka þessar ákvarðanir, sérstaklega ef viðkomandi væri búinn að skoða þetta. Það eru alltaf kostir og gallar. Hlutir eins og t.d. með vindorkuna eru að hjálpa okkur, á undanförnum árum hefur sú staða breyst gríðarlega mikið. Það er hægt að framleiða miklu meiri orku úr vindmyllum en áður. Ein vindmylla getur framleitt, 250 metra há, eftir því sem ég best veit, 12 MW. Bara til að setja í samhengi eru Kárahnjúkar 710 MW. En eins og ég nefndi í framsöguræðu minni: Engin rós er án þyrna. Það eru bæði kostir og gallar við vindorkuna. Þetta er allt það sem menn þurfa að vega og meta. Menn ákváðu að fara þessa leið, þ.e. að vinna þetta með þessum hætti og ég held að langflestir segi að það sé skynsamlegt að nálgast þetta með þessum hætti.

Það sem hefur vantað í þetta ferli er að þingið hefur ekki klárað. Það er vandinn. Svo geta menn sagt að það sé stjórnarflokkunum að kenna eða ríkisstjórninni en aðalatriðið er að þetta hefur ekki verið klárað. Það er ekkert leyndarmál og þess vegna var ég að benda hv. þingmönnum á heimasíðuna ramma.is. Þar er verkefnisstjórnin núna, því það er misskilningur að það sé ráðuneytið sem vinnur þetta, það er sér verkefnisstjórn. Verkefnisstjórnin kallar til faghópana og verkefnisstjórnin vinnur þetta. Án nokkurs vafa mun hv. þingnefnd eða jafnvel fleiri en ein kalla verkefnisstjórnina til til að fá beint frá henni þær upplýsingar sem þarf. En mér finnst til fyrirmyndar að hún sé með þetta á þessari heimasíðu þar sem maður getur skoðað þessa hluti. Það er líka hægt að skoða stöðu mála á vef Orkustofnunar þannig að upplýsingar liggja fyrir.

En við þurfum að taka ákvörðun. Af hverju þurfum við að taka ákvörðun? Við erum með mjög háleit markmið í loftslagsmálum. Jafnvel þó að það væri ekki þá væri mikilvægt að gera þetta upp á framþróun í þjóðfélaginu. Við erum í einstakri stöðu, Íslendingar, vegna þess að við fórum í orkuskipti eitt og orkuskipti tvö. Við erum búin að stæra okkur af því og aðrar þjóðir hafa öfundað okkur af því í áratugi, kannski árhundrað, alla vega áratugi. Nú ætlum við að stíga metnaðarfyllri skref og við þurfum að klára það verkefni. Það gerum við ekki öðruvísi en að hafa orku. Ef menn eru þeirrar skoðunar að það sé hægt að gera það með einhverjum öðrum hætti þá eiga menn bara að segja frá því. Það er mikilvægt að tala um þetta verkefni en fyrir mér er það þannig að við erum dæmd af því hvað við gerum en ekki hvað við tölum um. Þá sýnist mér augljóst að fara þurfi í betri nýtingu á orkunni sem felst m.a. í flutningskerfinu, felst í þessum frumvörpum, ekki bara um stækkun á virkjunum heldur sömuleiðis vegna einföldunar varðandi varmadælurnar. Það er ekki tæmandi. Menn tala hérna snjallmælavæðingu og ýmsa aðra þætti. Síðan eru hlutir eins og við erum búin að ræða, og hv. þm. Bergþór Ólason tók upp í morgun sérstaka umræðu, að við þurfum að hafa regluverk sem virkar og regluverk er auðvitað alltaf mannanna verk. En við þurfum að sjá til þess að við séum ekki í þeirri stöðu að vera að brenna jarðefnaeldsneyti til að framleiða orku fyrir heimilin. Það er bara augljóst. Það er verkefnið. Við þurfum að hugsa það, ekki bara fyrir næsta vetur, við þurfum að hugsa það til framtíðar.

Við þurfum líka að sjá til þess að allir staðir á landinu hafi aðgang að grænni orku. Af hverju? Vegna þess að ef við segjum við einhvern hluta landsins að hann hafi ekki aðgang að henni þá erum við að segja að landshlutinn taki ekki þátt í þessari grænu orkubyltingu, því að þetta er bylting. Þetta er mjög spennandi. Menn skyldu ekki nálgast þetta þannig að þetta sé svo erfitt að það sé ekki hægt að fara í þetta verkefni. En það þarf að gera það og aftur, tækninýjungarnar munu hjálpa okkur. Við eigum marga möguleika með hringrásarhagkerfi, við erum með orku sem kemur úr bæði gagnaverum og öðrum stórnotendum sem við erum ekki að nýta, svo dæmi sé tekið. Carbfix-verkefnið, sem ég þekki mjög vel, enda fór það af stað þegar ég var stjórnarformaður Orkuveitunnar, er dæmi um mjög spennandi verkefni sem margar þjóðir, eða flestir sem eru í þessu, líta sérstaklega til en hugvitið, sem er okkar mikilvægasta auðlind, og er sem betur fer nóg til af, mun ekki tæmast þar. Þó að ekki sé gengið frá því nákvæmlega í þessu frumvarpi, eðli málsins samkvæmt, er það það sem mun drífa okkur áfram í lausnum til þess að komast á þann stað sem við viljum vera, sem er að ná loftslagsmarkmiðunum.