152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi.

[15:47]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta umræðuefni er kirfilega komið á dagskrá víða um heim og minnir okkur á það að á ófriðartímum eru innviðir samfélaga skyndilega ekki eins öruggir og maður á að venjast. En það sem hefur gerst, ef við tölum um þetta beinlínis, þ.e. fæðuöryggið hér innan lands vegna stríðsins í Úkraínu, þá held ég að sé mikilvægt að við setjum nokkra þætti í samhengi. Í Úkraínu setja stjórnvöld útflutningstakmarkanir á margar tegundir matvæla núna, t.d. sólblómaolíu, maís, hveiti og bygg. Þetta hefur auðvitað áhrif enda er Úkraína afar stór framleiðandi af þessu öllu saman í útflutningi. Nú í síðustu viku afléttu stjórnvöld í Úkraínu þessum takmörkunum vegna maís og sólblómaolíu, þ.e. þau meta það sem svo að birgðirnar séu þannig að fæðuöryggi þeirra sé tryggt. Það er breyting frá einni viku til annarrar. Nú stendur yfir sáning á voryrkjum í Úkraínu og þar er staðan þannig að bændur þar eru að sá korni og sólblómum þrátt fyrir að það geisi stríð í landinu og aðstæður sem hafa ekki verið uppi þar síðan í seinni heimsstyrjöld sýna hversu óvenjuleg staðan er. En stjórnvöld þar telja þó að 30–50% samdráttur geti orðið á því landsvæði sem næst að setja niður í. Við erum í samskiptum við aðila bæði austan hafs og vestan og auðvitað við Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið þar sem upplýsingum er miðlað og því mun verða haldið áfram. En ég vil árétta það hér undir þessum lið að það er ekkert sem bendir til þess að fæðuöryggi Íslendinga eða landsmanna hér verði raskað en það mun koma upp hikst í framleiðslukeðjunni víða og auðvitað meiri líkur á slíku eftir því sem ófriðurinn dregst á langinn.