152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi.

[15:49]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar kannski aðeins að ítreka fyrirspurn mína varðandi viðbragðsáætlun, hvort það sé til einhver viðbragðsáætlun önnur en samráð við önnur lönd til að bregðast við þessu ástandi. Við erum einmitt svo lánsöm að hafa góðar aðstæður til kornræktar hér á landi og ljóst er að hægt er að gefa í í þeim efnum. Það er mikilvægt að við séum sjálfum okkur næg í sem flestu og markmiðið er auðvitað alltaf að stefna að sjálfbærni. Því vil ég spyrja hæstv. matvælaráðherra: Eru einhverjar aðgerðir á teikniborðinu sem snúa að því að auka og styðja við innlenda kornframleiðslu?