152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir þessa umræðu og svör forsætisráðherra hér áðan. Það var merkilegt á þingi Norðurlandaráðs í Malmö í síðustu viku hvað mikið var fjallað um þau mál sem við fjöllum um hér í dag og á svipuðum nótum. Öll nágrannalönd okkar eru að tryggja matvæla- og fæðuöryggi á sínum svæðum. Stríðið í Úkraínu vakti okkur af værum blundi með það. Danskir bændur hafa hætt við 7% minnkun framleiðslu á korni til að tryggja nægt framboð af korni í landinu á næsta ári. Minni framleiðsla átti að vera framlag danskra bænda til kolefnislausari landbúnaðar og standast þær kröfur sem þeir höfðu sett fram. Danir hafa dregið þá ákvörðun til baka þrátt fyrir loftslagsmarkmið sín. Þá var sláandi á Norðurlandaþingi í síðustu viku að finna ótta nágrannaþjóðanna, óttann í tali þeirra um markvissar aðgerðir til að tryggja eigið matvælaöryggi. Íslendingar verða að stórauka uppbyggingu sína á innviðum til að standast þær kröfur sem Evrópuþjóðir standa frammi fyrir um sjálfbærni í matvæla- og orkuframleiðslu. Þá á að vera hægt að skoða stórfellda ræktun repju og annarra slíkra kornafurða í landinu.

Virðulegur forseti. Byggja þarf upp korngeymslur sem geyma ásættanlegt magn fyrir þjóðina komi upp sú staða í alþjóðamálum að við verðum að standa á eigin fótum. Í dag eru til birgðir af kornvörum hjá einkafyrirtækjum í landinu til þriggja mánaða. Orkuskipti fyrir landbúnað og skip eru lykilþættir í öryggi þjóðarinnar.

Virðulegur forseti. Það kostar að vera sjálfstæð þjóð í stóru harðbýlu landi þar sem afkoma bænda er hluti af öryggiskröfum sem við gerum til matvæla- og fæðuöryggis sjálfstæðrar þjóðar.