Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir hennar framsögu. Ég er ekki í fjárlaganefnd, ég er að leysa hv. þm. Eyjólf Ármannsson af, en ég er búinn að vera að fara aðeins í gegnum þetta. Það hlýtur að vera til einföld skýring sem ég vil biðja hv. formann fjárlaganefndar um að útskýra, það varðar lið 25, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Ég get ekki skilið hvernig þessi liður á að lækka næstu árin og ekki einu sinni vera nálægt því eftir fjögur ár að ná upp í það sem hann er í dag. Samkvæmt þessu eru þetta 72 milljarðar í dag en fara niður í 70. Annað sem mig langar að fá upplýsingar um er í sambandi við lið 27, örorku og málefni fatlaðs fólks. Þar er verið að tala um einföldun kerfisins en þar er áætlun um einföldun kerfisins og hvata til aukinnar atvinnu, það er eins og ekki sé reiknað með neinum kostnaði við endurskoðun almannatryggingakerfisins og það sé eiginlega ekki reiknað með neinu á þessu ári, kannski á næsta ári. Það er eins og það sé ekki reiknað með að endurskoðunin fari fram fyrr en — ég veit ekki hvenær, það er eins og það sé allt í óvissu þar.

Síðan vil ég spyrja: Fyrir nokkrum vikum var samþykkt á Alþingi 3% hækkun á lífeyri almannatrygginga til að sporna við áhrifum verðbólgu. Ég spyr því hv. formann fjárlaganefndar: Verður við uppfærslu fjárhæða almannatrygginga um næstu áramót miðað við fjárhæðir almannatrygginga að viðbættum 3% eins og þær standa í dag eða verður litið til fjárhæða almannatrygginga eins og þær voru í upphafi árs, 3% lægri? Líta verður til þess að verðbólga þessa árs verður sennilega 7,5%. Því skiptir þessi afmörkun máli, hvort fjárhæð almannatrygginga hækkar um 4,5% eða 7,5% á næstu árum.