Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að rammaáætlun sé mikilvægt stjórntæki og hef þess vegna haft talsverðar áhyggjur af því að svo langur tími hafi liðið frá því að við gátum afgreitt það síðast, eða í janúar 2013, með formlegum hætti við rammaáætlun 2. Ég vil biðja alla þá sem hafa komið hér upp og talað um pólitík og hrossakaup og eitthvað, að vera tilbúnir að skoða umræðuna sem var þá og líta jafnvel í eigin barm sinna flokka og rifja það upp hvernig það var, áður en við höldum áfram. En um hvað snýst rammaáætlun? Hún snýst um nýtingu, vernd og bið. Nýting þýðir auðvitað ekki að það verði virkjað. Hins vegar ef það fer í vernd þá erum við búnir að búa þannig um hnútana að það skuli vernda. Það að setja í bið er að segja að við hérna inni séum ekki tilbúin til að taka allar ákvarðanir fyrir hönd framtíðarinnar hér og nú í dag en að við séum tilbúin að skoða það betur og leyfa komandi kynslóðum að taka þátt í því. Ég er alla vega mjög tilbúinn til þess.

Ég vil að lokum segja að þetta er mikilvægt stjórntæki. Ég vil þakka meiri hlutanum fyrir þetta stjórntæki. Rammaáætlun lifir með þessu. (Forseti hringir.) Möguleikar okkar um ná loftslagsmarkmiðum okkar lifa líka.