Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika að það er mikilvægt að við afgreiðum rammaáætlun hér í dag og ég tel það vera gott skref. Við verðum samt að hafa í huga að þetta er málamiðlun á milli stjórnarflokkanna einna, ekki þvert yfir þingið. Ég tel mikilvægt að við þingmenn tökum líka pólitíska afstöðu á grunni þeirra gagna sem liggja fyrir um þetta jafnvægi á milli verndar og nýtingar, hvað það er sem við þurfum að nýta til að halda samfélaginu uppi og hagsældinni. Það sem gerðist hins vegar í nefndinni er að það birtist fullskapað nefndarálit. Það var engin umræða, ekkert svigrúm til að ná sátt þvert yfir þingsalinn, þvert yfir flokka. Það vantaði pólitíska hugrekkið til þess að ná þessari mikilvægu sátt um rammaáætlun sem er svo dýrmætt og mikilvægt skref. Sáttin var bara á milli stjórnarflokkanna til þess eins að halda lífinu í ríkisstjórninni. En þess vegna, út af mikilvægi þess (Forseti hringir.) að við ætlum að taka þetta skref og afgreiða rammann, mun Viðreisn sitja hjá við þessa afgreiðslu.