Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Nefndin hefur fjallað um málið að nýju milli 2. og 3. umr. og liggur álitið frammi. Nefndin fjallaði sérstaklega um það álitaefni hvort frumvarpið feli í sér að innleitt sé á ný ákvæði um bann við guðlasti. Meiri hluti nefndarinnar undirstrikar að það er ekki vilji löggjafans með þessu frumvarpi að kveða á um bann við guðlasti en ákvæði þess efnis var fellt brott úr almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með lögum nr. 43/2015. Meiri hlutinn vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2018 gilda þau um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins óháð tilgreindum mismununarþáttum. Meiri hluti nefndarinnar telur að með hliðsjón af gildissviði og markmiði laganna sé ljóst að ætlunin sé að allir einstaklingar hljóti jafna meðferð í samfélaginu og að einstaklingar verði ekki fyrir mismunun á grundvelli þeirra mismununarþátta sem tilgreindir eru.

Meiri hlutinn áréttar sjónarmið sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu þar sem segir: „Mikilvægt er að hafa í huga að ójöfn meðferð fólks á grundvelli framangreindra mismununarþátta þarf í einstaka tilfellum ekki að vera mismunun. Við mat á mismunun er áherslan lögð á samanburð við annan einstakling við sambærilegar aðstæður. Einstaklingar eiga ávallt að hljóta sambærilega meðferð við sambærilegar aðstæður. Að sama skapi á ekki að mismuna einstaklingum sem eru ekki í sambærilegum aðstæðum nema unnt sé að réttlæta slíka meðferð á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði. Mismunandi meðferð á grundvelli þeirra mismununarþátta sem frumvarp þetta tekur til kann því að vera réttlætanleg við vissar aðstæður. Hvert tilvik þarf því að meta fyrir sig.“ Við mat á hverju tilviki þurfi jafnframt að huga að mörkum milli tjáningarfrelsis á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar og verndar einstaklings gegn mismunun. Það á ekki að geta talist mismunun í skilningi laganna að einstaklingar tilheyri tilteknum mismununarhópi, svo sem vegna kynhneigðar. Meiri hlutinn getur því ekki tekið undir sjónarmið þess efnis að það eitt og sér, að tilheyra hópi sem kunni að vera móðgandi fyrir annan hóp, geti talist áreitni í skilningi laganna. Það er grundvallaratriði að mannréttindi eins hóps geta ekki réttlætt að mannréttindi annars hóps séu skert.

Meiri hlutinn bendir jafnframt á að fyrrum 125. gr. almennra hegningarlaga, sem gerði guðlast refsivert og hefur nú verið felld brott úr lögum, varðaði það að draga dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags opinberlega. Markmið laga um jafna stöðu utan vinnumarkaðar er aftur á móti að vernda einstaklinga gegn mismunun, svo sem vegna eigin trúar eða lífsskoðunar, þannig að tryggt sé að einstaklingar geti haft hvaða trú eða lífsskoðun sem þeir kjósa án þess að verða fyrir mismunun í samfélaginu eða hljóta lakari þjónustu á þeim grundvelli. Það er grundvallarréttur að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt er mikilvægt að lögfesta aukna réttarvernd fyrir fólk sem er líklegra til að verða fyrir mismunun á grundvelli þeirra þátta sem tilgreindir eru og stuðla þannig að auknu jafnrétti í samfélaginu.

Að lokum áréttar meiri hlutinn þau sjónarmið sem komu fram við umfjöllun nefndarinnar fyrir 2. umr. málsins, m.a. hvað varðar mikilvægi samráðs.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir og Kári Gautason. Áheyrnarfulltrúi í nefndinni, Sigmar Guðmundsson, er samþykkur áliti þessu.