153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Kæru landsmenn og kæru þingmenn. Á mánudaginn átti ég því láni að fagna að skrifa ásamt umhverfisráðherra undir stjórnar- og verndaráætlun fyrir Geysissvæðið. Himinninn var heiðríkur, Strokkur gaus með reglulegu millibili og almenn gleði og friðsæld var yfir hópnum. Á slíkri stundu getur verið erfitt að hugsa um hamfaraflóð í Pakistan, stríð í Úkraínu, orkukreppu í Evrópu og fjölmargt fleira sem ógnar meðbræðrum okkar og systrum um allan heim. En þótt lönd og höf skilji að þá eru vandamál þeirra líka okkar vandamál.

Loftslagsváin hefur nú þegar skapað neyðarástand víða um heim. Við glímum við það risavaxna verkefni að snúa þessari ógnvænlegu þróun við, lágmarka skaðann og tryggja framtíð okkar og lífríkisins alls á þessari plánetu. Í upphafi þessa kjörtímabils voru kynnt ný og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem eru á beinni ábyrgð okkar. Á fyrsta kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar kynntum við fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum og lögfestum markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Til að ná hertum markmiðum munum við endurskoða fyrirliggjandi aðgerðaáætlun og setja fram sameiginleg markmið stjórnvalda og allra geira samfélagsins um hverju hver og ein atvinnugrein getur skilað í samdrætti í útblæstri. Lagt verður fram að nýju frumvarp um bann við olíuleit í efnahagslögsögunni sem mikilvægt er að verði afgreitt enda felast í því skýr skilaboð til umheimsins að Ísland ætlar að leggja sitt af mörkum til að takast á við þessa stærstu áskorun samtímans. Við erum á fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu inn í nýtt grænt hagkerfi.

En kæru landsmenn. Um leið og hraðar breytingar geta verið ógnvænlegar þá geta þær líka vakið upp vonir um bjartari framtíð. Um daginn flaug ég í átta mínútur í rafmagnsflugvél, sem var nú allstreituhlaðin lífsreynsla. Það var stutt en þó lengra en fyrsta flug Wright-bræðra árið 1903 sem varði í 12 sekúndur og náði 20 feta hæð. Þar með afsönnuðu þeir bræður þær kenningar að vél sem væri þyngri en loftið gæti ekki flogið. Þetta flug breytti mannkynssögunni og 20. öldin varð flugöldin. Við erum stödd á öðrum tímamótum. Á 21. öldinni verður flug á grænum orkugjöfum og ég spái því að við eigum eftir að sjá þær breytingar gerast hraðar en nokkurn gat órað fyrir.

Við hér á Íslandi erum í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess að góðar og réttar ákvarðanir hafa verið teknar. Almenningur á helsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, og því stendur ekki til að breyta. Þetta er eitt mikilvægasta innviðafyrirtæki landsins ásamt Landsneti og við hljótum öll að vera þakklát fyrir að hugmyndir um að selja þessi mikilvægu fyrirtæki náðu ekki fram að ganga á sínum tíma.

Eins hljótum við að þakka fyrir að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn. Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt, þegar almenningur í Noregi, Þýskalandi og Bretlandi borgar jafnvel margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur, er augljóst að við erum í öfundsverðri stöðu. Þetta er vegna þess að góðar og framsýnar ákvarðanir hafa verið teknar hingað til. Og miklu skiptir hvernig verður fram haldið. Þegar kemur að orkuskiptum og orkuframleiðslu þá er frumskylda okkar í þeim efnum við íslenskan almenning í nútíð og framtíð. Við þurfum að tryggja að öll orkunýting, hvort sem það er vatnsföll, jarðvarmi, vindurinn, sólarorka eða hvað annað, verði ábyrg, í sátt við náttúruna og í þágu almennings.

Kæru landsmenn. Hækkandi orkuverð er aðeins ein afleiðing ömurlegs innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Nú þegar hafa þúsundir óbreyttra borgara fallið í þessu stríði, milljónir manna eru á flótta, samfélagslegir innviðir hafa verið lagðir í rúst og endalok stríðsins eru enn ekki í sjónmáli. Ef við rifjum upp söguna þá voru ástæðurnar sem leiddu til blóðbaðs fyrri heimsstyrjaldarinnar ekki veigamiklar en að lokum fór svo að milljónir dóu, milljónir voru sviptar framtíð sinni, draumum og þrám.

Þó að við Íslendingar séum enn fjarri heimsins vígaslóð þá lætur stríðið engan ósnortinn og enn og aftur hefur fjöldi fólks verið sviptur framtíð sinni, draumum og þrám. Ísland hefur tekið á móti um 1.600 Úkraínumönnum á flótta og við munum gera okkar besta til að styðja við þau eftir fremsta megni sem hingað kunna að koma. Ísland hefur veitt úkraínsku þjóðinni pólitískan stuðning á alþjóðavettvangi og lagt fram fjármuni m.a. í mannúðaraðstoð og efnahagslegan stuðning. Þegar Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í næsta mánuði munu málefni Úkraínu koma til okkar kasta og við munum tala skýrt, hér eftir sem hingað til..

Stríðið hefur líka sýnt okkur með áþreifanlegum hætti að fæðuöryggi er risastórt öryggismál. Ansi langt er um liðið síðan Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og Magnús Ketilsson hvöttu bændur til dáða í grænmetisrækt á 18. öld þegar kartaflan var lykill að því að lifa af í harðbýlu landi. Það var framsýni á þeim tímum. Á síðasta kjörtímabili var unnin matvælastefna, stofnaður matvælasjóður og stuðningur við garðyrkjubændur aukinn um fjórðung, af því að við ræðum hérna um kartöfluna. Við munum halda áfram á sömu braut, landbúnaðarstefna verður lögð fyrir þingið og metnaðarfull markmið verða sett um að verða í auknum mæli sjálfum okkur nóg, hvort sem um er að ræða grænmetisframleiðslu eða aðrar landbúnaðarvörur.

Kæru landsmenn. Stríðið í Úkraínu kom beint ofan í tveggja ára heimsfaraldur og verðbólga plagar nú samfélög vestan hafs og austan og hafa viðlíka verðbólgutölur ekki sést í lengri tíð. En góðu fréttirnar eru að atvinnuástandið hér á landi er gott og hagvaxtahorfur góðar. Það eru umsvif í efnahagslífinu. Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að stjórnvöld og Seðlabankinn séu samstillt og ríkisfjármálin og peningamálastefnan vinni í sömu átt til að auka ekki frekar á vandann. Það skiptir máli að stjórnvöld styðji við þau sem eiga erfiðast með að mæta þessari stöðu, eins og nú í vor þegar við hækkuðum greiðslur almannatrygginga og húsnæðisstuðning og barnabótaauki var greiddur út.

Félagslegar áherslur stjórnvalda í húsnæðismálum á undanförnum árum hafa skilað langtum fleiri almennum íbúðum sem hafa skipt sköpum fyrir húsnæðisöryggi tekjulægri hópa. Átakshópur þjóðhagsráðs lagði í vor fram ítarlegar tillögur að umbótum í húsnæðismálum með áherslu á aukið framboð á íbúðarhúsnæði, aukið húsnæðisöryggi, ekki síst þeirra sem eru á leigumarkaði, og endurbættan húsnæðisstuðning. Ríkisstjórnin mun fylgja þessum tillögum eftir, í samstarfi við sveitarfélögin verða byggðar 35.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta húsnæðisþörf allra hópa. Aðgerðirnar munu ekki aðeins auka húsnæðisöryggi heldur einnig draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði, en húsnæðisverð er einn af þeim þáttum sem hefur ýtt undir óstöðugleika hér í verðlagsmálum. Þess vegna forgangsröðum við húsnæðismálunum; til að auka lífsgæði fólks og tryggja meiri jöfnuð, bæði í upp- og niðursveiflum efnahagslífsins.

Við munum einnig halda áfram byggja upp barnabótakerfið en á síðasta kjörtímabili styrktum við kerfið þannig að barnafjölskyldum sem fá barnabætur hefur fjölgað um ríflega 3.100 frá árinu 2018 og útgreiddur stuðningur hefur aukist um ríflega 3,5 milljarða króna. Á kjörtímabilinu munum við ráðast í frekari umbætur og styðja betur við barnafjölskyldur, sem er risastórt velsældarmál fyrir samfélagið allt. Við munum áfram standa vörð um almannaþjónustuna, ekki síst heilbrigðisþjónustuna, sem hefur gengið í gegnum erfiða tíma undanfarin ár og staðist hvert álagsprófið á fætur öðru til heilla fyrir þetta samfélag. Þar skiptir öllu að við byggjum áfram upp til framtíðar. Öll þessi framfaramál og fleiri skipta máli fyrir fólkið í landinu og verða vonandi til þess að greiða fyrir farsælum samningum á vinnumarkaði í vetur.

Kæru landsmenn. Íslenskt samfélag hefur tekið stórstígum framförum þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Þyngst vega líklega löggjöfin um kynrænt sjálfræði og aukin réttindi trans og intersex barna og ný framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks sem mun tryggja að við höldum áfram á réttri braut. Þessi mál eru vitnisburður um að það skiptir máli hvaða stefnu og ákvarðanir við tökum í stjórnmálum. En á sama tíma er dapurlegt að skynja aukna fordóma og niðrandi orðræðu í garð hinsegin fólks. Það sýnir okkur svo ekki verður um villst að réttindabaráttunni lýkur aldrei. Alltaf er hætta á afturför. Meðal annars vegna þessarar þróunar setti ég á laggirnar starfshóp um hatursorðræðu sem hóf störf í sumar og stefnir á að skila af sér fyrir áramót. Markmið hans er að gera tillögur um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu, m.a. vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar.

Annað verkefni sem mun hafa mikil áhrif á réttindi fólks í daglegu lífi sínu er lögfesting sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hluti af því verkefni er að koma á laggirnar sjálfstæðri og óháðri mannréttindastofnun. Undanfarnar vikur hef ég haldið samráðsfundi um land allt, sem ég hef lært mikið af, um mannréttindi. Mannréttindi eru ekki sjálfsögð og við getum ekki tekið þeim sem gefnum. Við eigum að stefna að því að Ísland verði framúrskarandi á sviði mannréttinda. Við höfum alla burði til þess sem samfélag. Þannig verður samfélagið okkar manneskjulegra, betra og þróttmeira, hvort sem horft er til efnahagsmála, þróunar lýðræðis og stjórnmála eða menningar og lista.

Réttindi innflytjenda voru mikið rædd á þessum fundum en hafin er vinna við stefnu í málefnum útlendinga, sem er löngu tímabært í landi þar sem hátt í 16% landsmanna eru innflytjendur. Samfélagsleg þátttaka fólks sem hingað flytur til að sinna ýmsum störfum skiptir nefnilega okkur öll máli. Lífið er nefnilega ekki bara vinna heldur svo ótalmargt annað og við eigum að bjóða þeim sem hingað koma tækifæri til að taka þátt í lífinu á Íslandi, hvort sem það er að syngja í kór, stunda íþróttir og útivist, taka þátt í stjórnmálum og félagsstarfi, fara í leikhús eða hvað það er sem mann langar að gera. Íslenskukunnátta er mikilvægur lykill að því lífi fyrir þau sem hingað koma en ekki síður fyrir okkur sem berum ábyrgð á að verja tungumálið og tryggja að það geti haldið áfram að vaxa og dafna. Samstillt átak stjórnvalda og atvinnulífs þarf til að bjóða fleirum upp á íslenskukennslu, helst á vinnutíma og þeim að kostnaðarlausu. Þetta er raunverulegt og grjóthart viðfangsefni því að á komandi árum og áratugum mun reyna verulega á samheldni samfélagsins og þá skiptir máli að við róum öll í sömu átt í þessum efnum. Þetta er mál sem eykur svo sannarlega lífsgæði okkar allra.

Kæru landsmenn. Það rann upp fyrir mér á dögunum að ég hef setið hér í 15 ár og ég hef oft fengið að heyra þau 15 ár sem ég hef setið á Alþingi Íslendinga að það sé slæmt að ólíkir stjórnmálaflokkar þurfi stundum að starfa saman og þá verði engar framfarir. Mér finnst þetta viðhorf furðulegt því að málamiðlanir eru jú hornsteinn lýðræðisins. Í öllum lýðræðisríkjum þarf að gera málamiðlanir. Enginn sem kemur nálægt stjórnun getur forðast að gera málamiðlanir og þegar við hættum því erum við komin inn í eitthvað allt annað stjórnkerfi. Á tímum skautunar- og einstefnustjórnmála skiptir miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt.

Viðfangsefnin sem ég hef nefnt hér í kvöld eru risavaxin og það skiptir máli að við náum saman um framfaraskref í þeim efnum. Þau verða eingöngu leyst með samtali eftir lýðræðislegum leikreglum. Skautunarstjórnmálin munu ekki leysa neitt heldur dýpka ágreininginn og leiða til átaka á tímum sem kalla einmitt á að fólk með ólíkar lífsskoðanir tali saman og leiti saman lausna gagnvart þessum stóru áskorunum. Á slíkum grunni er hægt að byggja til framtíðar og þó að stjórn og stjórnarandstaða eigi auðvitað eðli málsins samkvæmt að takast á og leiða fram rök og gagnrök þá vona ég að við, þingmenn allir, óháð flokkum og ólíkum lífsskoðunum, berum gæfu til að vinna á slíkum grundvelli þjóðinni allri til heilla á þeim þingvetri sem nú er að hefjast.