Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

viðbrögð opinberra aðila við náttúruvá.

[14:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð með náttúruöflunum á Íslandi og um nýliðna helgi glímdu landsmenn sannarlega við þau þegar óhemju hvassviðri gekk yfir, á köflum samfara mikilli úrkomu og hárri sjávarstöðu. Þetta leiddi til margs konar tjóns, m.a. vegna skriðufalla á Vestfjörðum, flóða á Akureyri og gríðarlegs foktjóns þar sem Austfirðir urðu verst úti enda náði vindstyrkur þar ótrúlega víða viðmiðum fárviðris. Þar að auki varð rafmagnslaust á nálægt helmingi landsins með tilheyrandi óöryggi, beinu og óbeinu tjóni. Veðurspár, viðvaranir, lokanir vega, viðbrögð almennings og ekki síst vinna viðbragðsaðilar komu þó í veg fyrir að enn meira tjón hlytist af.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast og draga úr tjóni af svona atburðum og náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna; vöktun og varnir, náttúruhamfaratryggingar, verkefni ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóðs ásamt þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga svona atburða. Þá spila lögboðnar og valfrjálsar tryggingar sem keyptar eru af tryggingafélögum inn í tryggingavernd. Ég álít mikilvægt og tímabært að gera heildarúttekt á öllum þessum aðgerðum og hef í því ljósi tvisvar lagt fram þingsályktunartillögu um að farið verði í slíka úttekt. Meðflutningsmenn koma úr mörgum þingflokknum og á síðasta þingi bárust tíu umsagnir sem styðja tillöguna og draga fram að í kjölfarið þarf umbætur sem flýtt geta úrvinnslu eftir tjón, stuðlað að jafnræði og sanngirni, tryggt betri heildarsýn og fækkað gráu svæðunum. Í því ljósi spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort þörf sé á úttekt á reynslunni af viðbrögðum opinberra aðila og tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara (Forseti hringir.) og hins vegar hvort það liggi fyrir hvort eða hvernig Stjórnarráðið kemur að úrvinnslu mála eftir nýafstaðið óveður.