Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það er ódýr málflutningur að spila inn á ótta fólks til að knýja fram einhverjar tilteknar breytingar, ekki síst þegar stórfelldar breytingar eru boðaðar á kerfi sem á að verja fólk sem er í ákaflega viðkvæmri stöðu.

Hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson féll því miður í þann fúla pytt í umræðum hér í þingsal í gær. Hann fullyrti að verið væri að misnota flóttamannakerfið og brjóta flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna án þess að gera minnstu tilraun til að rökstyðja þessa fullyrðingu sína og boðaði harðari aðgerðir sem munu bitna á saklausu fólki. Ef verið er að misnota kerfið og flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna þá þarf að segja okkur skýrt hverjir eru að gera það, hvernig það er gert og hvert umfangið er. Hingað til hafa menn forðast þá umræðu. Eru þetta tveir af heildinni eða 500? Eru til sannanir fyrir þessum brotum og er umfang þeirra svo mikið að það réttlæti að við herðum enn frekar á, reisum hærri girðingar og voldugri múra svo að venjulegt fólk í neyð, feðrum, mæðrum og börnum sem búa við ömurlegar aðstæður í öðrum löndum, stríð, ofsóknir og örbirgð, verði gert það enn erfiðara að fá skjól og frið hér á Íslandi? Því að það verður svo sannarlega afleiðingin af þessum hertu reglum eins og við þekkjum vel. Er það virkilega svo að möguleg misnotkun fárra á kerfi eigi sjálfkrafa að leiða til þess að þeim sem þurfa svo sannarlega skjól verði úthýst? Það verður afleiðingin.

Við skulum heimfæra þessi ummæli upp á annað kerfi. Ef ráðherra kæmi hér upp og segði að heilu hóparnir væru að misnota almannatryggingakerfið og boðaði á sama tíma breytingar sem myndu þrengja að rétti þeirra sem ekkert hafa brotið af sér og eru algjörlega upp á samhjálp kerfisins komnir myndi Austurvöllur fljótt fyllast af mótmælendum. Það er löngu orðið tímabært að íslensk stjórnvöld átti sig á því að samkvæmt íslenskum lögum er bannað að senda fólk úr landi í hættulegar og ómannúðlegar aðstæður. Menn eiga að tala í samræmi við það.