Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að borga 20, 30 eða jafnvel 40% af launum sínum í afborganir á húsnæðisláni er ekkert óeðlilegt en að borga 60 eða jafnvel 80% af launum sínum í afborganir er ávísun á svelti hjá viðkomandi einstaklingi og hann verður jafnvel að selja íbúðina sína áður en hann missir hana. Seðlabankastjóri lýsti skoðun sinni á þessu unga fólki þegar hann talaði um támyndatöku á Tenerife sem ástæðu hækkana stýrivaxta. Það að setja dæmið þannig upp að hækkun stýrivaxta sé vegna þess að ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð sé að flatmaga á Tenerife er fáránlegt, ömurlegur málflutningur af verstu gerð. Að stórhækka stýrivexti á húsnæðislánum ungs fólks eins og gert hefur verið, og þá einnig afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar á stöðu þess, er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi. Ég spyr mig hvar seðlabankastjóri lærði hagfræði. Miðað við gjörðir hans mætti halda að hann hefði farið í hagfræði í Rússlandi og síðan í framhaldsnám í Norður-Kóreu.

Síðan má spyrja sig hvers vegna ríkisstjórnin situr auðum höndum og samþykkir að gera ekkert fyrir þennan hóp sem er núna að borga yfir 100.000 kr. meira á mánuði og kominn upp undir 80% af launum sínum í afborgun á mánuði. Nei, ríkisstjórnin er auðvitað að skoða málin, athuga málin, vakta málin, sem sé að gera það sem hún gerir best sem er að gera ekki neitt. Breiðu bök þessarar ríkisstjórnar eru öryrkjar, aldraðir, ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Að eiga ekki fyrir mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum er það sem ríkisstjórnin býður upp á.

Í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalagsins kemur fram að 42% fatlaðs fólks var hjá umboðsmanni skuldara og hefur fjölgað stórlega frá því 2019. Það að setja ungt fólk, fatlað fólk, í þær aðstæður að það sé bara kostnaður og fyrir er þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin geri eitthvað fyrir þetta fólk.