Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:23]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Mig langar bara að byrja á því að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu. Hún er mjög mikilvæg og ég hef komið hingað upp áður og talað um aðbúnað og þess vegna styð ég þetta heils hugar og segi bara: Þótt fyrr hefði verið. Vonandi fer þetta alla leið og verður tekið alvarlega, eins alvarlega og á að taka það, en það er bara þannig að geðdeildir á spítölum mæta afgangi. Það er eiginlega undantekningarlaust það sem virðist skipta minnstu máli. Eða, upplifunin er alla vega þannig og þess vegna veltir maður fyrir sér: Bíddu, hvers vegna er það? Hvers vegna er skilningurinn á því að fólk sé að látast hérna vegna geðsjúkdóma, mjög margir á ári — hvers vegna er þetta ekki tekið alvarlega? Af hverju erum við ekki að reyna allt sem í okkar valdi stendur til að gera þetta alla vega þannig að fólk vilji leita á geðdeild?

Það er nú bara þannig, alla vega hefur maður heyrt sögur af því að fólk veigri sér við því að fara vegna þess að umhverfið er bara ekkert sérstaklega skemmtilegt. Umhverfið er ekki þannig að fólk langi til að koma og upplifi að þetta sé góð reynsla og umhverfið, hvað á maður segja, umvefjandi og bara umhverfi þar sem maður sér að fólk myndi blómstra. Þarna erum við svo eftir á. Við erum ekki í takti við tímann og við erum ekki að fara inn í nútímann einu sinni, hvað þá framtíðina. Þetta er að gerast annars staðar. Það eru rosalega flottar geðdeildir og geðspítalar úti um allan heim þar sem hugsunin er: Hvernig ætlum við að láta fólki líða betur? Í fyrsta lagi þurfum við alla vega að hafa umhverfið þannig að okkur myndi líða vel í því, okkur, fólki sem getur kannski mætt í vinnuna alla daga og vinnur á geðdeildinni, við ætlum fyrst að gera það þannig að okkur líði vel í þessu umhverfi.

Það þarf ekki annað en að koma inn á bráðamóttöku geðdeildar eða niður á geðdeild Landspítala og líka inn á Kleppsspítala, sérstaklega geðdeild Landspítala, þar sem það tekur á móti manni svona — maður upplifir ekki að maður sé velkominn, og þetta er allt svolítið gamalt og maður finnur að það er ekki nein ást og umhyggja sett í umhverfið. Það er talað um myglu, það er ýmislegt sem er þarna, þetta eru þröngir gangar, þeir eru dimmir, herbergin eru dimm og þröng og þetta er bara ekki í lagi.

Það er svo undarlegt að það er eins og þessi skilaboð komist ekki alveg til skila eða þá að það eru aðrir hlutir sem skipta meira máli. Af hverju er ekki verið að fylgja öðrum þjóðum, fylgja því sem við vitum um geðheilsu, að ef ég er í umhverfi sem er umvefjandi, hlýlegt — og t.d. með útiveruna, það er náttúrlega líka bara annað, að fá kannski ekki að fara út að reykja eða fá ekki að fara út í göngutúr eða fá ekki nema eitthvað x mörgum sinnum á dag, allt svona, að vera í góðu umhverfi, með næga útiveru, í fallegu umhverfi. Þetta skiptir máli. Það skiptir máli fyrir fólk sem er með geðrænar áskoranir og það skiptir máli fyrir almenning allan. Það er okkur öllum til bóta ef við tökum það alvarlega, ef við bara hugsum: Já, ókei, þetta er eitthvað sem hefur sýnt sig annars staðar að sé að virka. Þetta er eitthvað sem aðrir tala um að það sé mikilvægt og sérstaklega notendur. Þegar notendurnir eru farnir að segja: Já, mér líður illa og ég myndi fara upp á geðdeild en mig langar ekki að fara þangað. Mér líður ekki vel þar. Ókei, hvað gerum við þá? Við segjum ekki bara: Já, ókei, þá er það bara þannig. Nei, við þurfum að bregðast við. Við bjóðum ekki fólki upp á svona aðstöðu eins og er núna á geðdeildum á Íslandi. Það er ekki hægt. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé tekið alvarlega, að við fylgjum því sem við sjáum að virkar annars staðar og við áttum okkur líka á því að allir vilja vera í góðu umhverfi og það eru meiri líkur á að okkur gangi vel og líði betur ef umhverfið er þannig. Þannig er það bara ekki í dag, því miður. Það er bara svo langt frá því að vera þannig.

Hér var líka verið að tala um BUGL og ýmislegt. Þess vegna langar mig aðeins að koma inn á það, það eru náttúrlega mjög miklir biðlistar og húsnæði geðdeilda þarf líka að stækka. Það þarf að stækka barna- og unglingageðdeildir og það þarf líka að stækka geðdeildir fyrir fullorðna. Það þarf að vera meira pláss fyrir fólk til að koma. Það er ekki í lagi að það sé bara opið á vinnutíma á bráðamóttöku geðdeildar. Þá mætir fólk oft niður í Fossvog, mikið veikt, og þarf bara þjónustu af allt öðrum toga en annað fólk sem er kannski þarna á bráðamóttökunni í Fossvogi.

Ef við ætlum í alvörunni að takast á við vandann sem fylgir því að okkur líður verr, og við þurfum að reyna að finna leiðir til þess að hjálpa fólki að líða betur og mæta fólki þar sem það er, þá er það ekki skerðing á þjónustu. Þá er það frekar að auka í og vera með fleiri tækifæri fyrir fólk til að fá ólíka aðstoð. Það þurfa ekki endilega allir að leggjast inn en þeir þurfa að geta komið og mögulega verið í herbergi með einhverjum sem er fagaðili í geðrænum áskorunum og bara tekið sinn tíma til þess að fá aðstoð. Kannski er það klukkutími, kannski eru það tveir, þrír, fjórir klukkutímar. Kannski er það ein nótt, kannski eru það tólf. Við þurfum bara að hjálpa fólki þar sem það er. Við getum ekki sagt bara: Nei, ókei, þú ert ekki nógu veikur, þú getur ekki lagst hér inn á geðdeild, af því að við höfum í fyrsta lagi ekki pláss og í öðru lagi er bara lokað og þú þarft að fara niður í Fossvog, á bráðamóttökuna þar. Síðan eru hinir bara í innlögn. Þetta er ekki svona klippt og skorið.

Við þurfum að mæta fólki sem er í alls konar mismunandi stöðu með sínar geðrænu áskoranir, hvort sem það er þá að ég þarf smá aðstoð, þarf að tala við einhvern í hálftíma eða ég þarf að leggjast þarna inn yfir eina nótt. Ég þarf bara aðstoð og það er það sem ég er að kalla á og við hér og ríkisstjórnin eigum bara að mæta þeim. Við eigum ekki að reyna að segja: Nei, þú ert ekki í þessum kassa og ekki hinum kassanum og þá getum við ekki hjálpað þér ef þú ert einhvers staðar þarna á milli. Við þurfum bara að hugsa þetta upp á nýtt. Við erum að þjónusta, við erum að mæta fólki og það gengur ekki að gera það út frá einhverjum kössum eða opnunartímum eða öðru. Það þarf að stækka geðdeildirnar, þarf að gera þær miklu meira, hvað á maður segja, kósí. Það þarf að gera þær þannig að fólk langi til að koma, að því líði vel. Það er til hús sem hefur verið kallað Laugarásvegur, þetta er einbýlishús sem var tekið í notkun og er fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofsvanda og unga fólkið leitar oft þangað seinna í lífi sínu vegna þess að umhverfið var þannig að því leið vel, það var velkomið hvenær sem er. Við þurfum einhvern veginn að hugsa þetta upp á nýtt, stækka geðdeildir, taka á móti öllum, ekki vera með bara opið þegar bankarnir eru opnir og takast á við þetta ef við ætlum að koma út sem heilbrigðara samfélag.

(Forseti (OH): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)